Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2017/249
Með úrskurði, dags. 16. október 2017, staðfesti Persónuvernd að vinnsla ríkisskattstjóra á persónuupplýsingum um kvartanda hafi samrýmst lögum nr. 77/2000.
A kvartaði yfir vinnslu persónuupplýsinga um hann í fyrirtækjaskrá
ríkisskattstjóra. Í kvörtuninni kom meðal annars fram að kvartað væri yfir því
að fyrirtækjaskrá birti persónulegar upplýsingar á fyrirtækjavottorði, þ.e.a.s.
nafn, heimilisfang og kennitölu kvartanda, sem er stjórnarmaður í félaginu B.
Kvartandi er jafnframt skráður í framkvæmdastjórn félagsins og fer með
prókúruumboð samkvæmt vottorðinu.
Í úrskurði Persónuverndar kom fram að öll vinnsla persónuupplýsinga verði að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þegar stjórnvöld afli upplýsinga í tengslum við lögbundið hlutverk sitt geti vinnslan stuðst við 3. tölul. 1. mgr. 8. gr., þess efnis að vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu. Við mat á því verði að líta til þeirra lagareglna sem um fyrirtækjaskrá gildi og ríkisskattstjóri starfi eftir. Segir svo í úrskurðinum:
„Um starfsemi fyrirtækjaskrár er fjallað í lögum nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skal halda fyrirtækjaskrá eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í 4. gr. eru tiltekin þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá eftir því sem við á, en í 6. tölul. kemur fram að skrá skuli nafn, lögheimili og kennitölu forráðamanna. Þá segir í 1. mgr. 8. gr. laganna að ríkisskattstjóri skuli veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá.“
Í ljósi framangreinds taldi Persónuvernd að vinnslan sem um ræddi gæti fallið undir 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.
Að auki vísaði Persónuvernd til þess að öll vinnsla persónuupplýsinga yrði að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/2000 um gæði gagna og vinnslu. Taldi hún ekkert benda til þess að framangreind vinnsla persónuupplýsinga kvartanda bryti gegn þeim kröfum, en skráningin fæli í sér að skráðar væru lágmarksupplýsingar um fyrirtæki landsins og fyrirsvarsmenn þeirra.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla