Ársskýrsla RSK 2016 birt
Ársskýrsla ríkisskattstjóra fyrir árið 2016 hefur nú verið birt á vef embættisins. Farið er yfir starfsemina á árinu sem leið og ýmsar tölulegar upplýsingar birtar.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að aldrei hafi jafn margir skilað skattframtali einstaklinga með rafrænum hætti, eða 99,99% framteljenda. Er það til marks um áherslur RSK síðast liðin ár um að auka vægi rafrænnar stjórnsýslu. Í kafla ársskýrslunnar um þróunarmál má síðan m.a. lesa um verkefni sem tengjast rafrænni stjórnsýslu og munu koma til framkvæmda í náinni framtíð.
Almennt er skýrslunni ætla að varpa ljósi á starfsemi embættisins í víðu ljósi. Fjallað er um eflt skatteftirlit og þá þungu áherslu sem lögð hefur verið á samtímaeftirlit og vettvangsheimsóknir á liðnum árum. Auk þess má lesa úr tölulegum upplýsingum um þróun framtalsskila, fjölda kæra og erinda einstaklinga og lögaðila sem og þá þróun sem átt hefur sér stað í uppgjöri virðisaukaskatts síðustu tveggja ára.
Ársskýrslu ríkisskattstjóra 2016 má lesa í heild sinni á www.rsk.is/um-rsk/embaettid/arsskyrslur/ auk ársskýrslna fyrri ára.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla