Greiðsluáætlanir

Með greiðsluáætlun eru vanskil innheimt á lengri tíma og því léttist greiðslubyrði gjaldanda. Hagsmunum ríkissjóðs er einnig þjónað þar sem undirskrift greiðsluáætlunar rýfur fyrningu kröfunnar. Þjónustufulltrúar ríkisskattstjóra á 5. hæð á Tryggvagötu 19 aðstoða gjaldendur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu við gerð greiðsluáætlunar en sýslumenn í öðrum umdæmum.

Greiðsluáætlanirnar eru einhliða greiðsluáætlanir gjaldanda við innheimtumann. Gild greiðsluáætlun getur frestað frekari innheimtuaðgerðum.

Lögboðnir dráttarvextir halda samt sem áður áfram að reiknast á kröfur í greiðsluáætlun. Allar greiðsluáætlanir miða við að greitt sé meira heldur en vextina í hverjum mánuði. Greiðsluáætlun hefur ekki áhrif á skuldajöfnun vaxtabóta, barnabóta eða hvers konar inneigna sem kunna að myndast í skattkerfinu þar með talið virðisaukaskattsinneigna.

Hægt er að gera greiðsluáætlun við eftirfarandi aðstæður:

Launaafdráttur

Þegar launagreiðandi hyggst taka allt að 75% af útborguðum launum að kröfu innheimtumanns.

(N-greiðsluáætlanir)

Um opinber gjöld sem eru ekki komin í innheimtu

Álagning ársins hefur ekki verið greidd að fullu fyrir áramót og gjöldin ekki komin í fjárnámsboðun.

(M-greiðsluáætlanir)

Eftir viðtöku greiðsluáskorunar vegna makainnheimtu eða dánarbús

Greiðsluáskorun send til maka vegna skuldar á opinberum gjöldum eða til lögerfingja vegna dánarbús í einkaskiptum .

(M-greiðsluáætlanir)

Eftir árangurslaust fjárnám

Árangurslaust fjárnám hefur verið tekið hjá sýslumanni að beiðni innheimtumanns. Árangurslaust fjárnám er undanfari gjaldþrotaskipta. Ef gerð er greiðsluáætlun er hægt að koma í veg fyrir skráningu á vanskilaskrá Creditinfo á meðan staðið er við greiðslur og hún er í gildi.

(A- og B-greiðsluáætlanir)

Eftir fjárnám í eign

Tekið hefur verið fjárnám í eign að beiðni innheimtumanns og ekki búið að senda út nauðungarsölubeiðnina. Hægt er að vera með greiðsluáætlun vegna fjárnáms í eign í 6 til 8 mánuði, eftir það er nauðungarsölubeiðni send.

(F-greiðsluáætlanir)

Lokunaraðgerðir vegna skulda á vörslusköttum

Vörsluskattar eru m.a. staðgreiðsla, tryggingagjald og virðisaukaskattur.

(K- og L-greiðsluáætlanir)

Lög og reglur

Lög nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda 
Reglugerð nr. 240/2020 um launaafdrátt

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum