Kærur og málsmeðferð
Um stjórnsýslu gilda grunnreglur sem voru lögfestar með lögum nr. 37/1993 um stjórnsýslu. Hlutverk þeirra er að tryggja vandaða stjórnsýslu. Lögin hafa að geyma lágmarksreglur um skyldur stjórnvalda og réttindi borgara. Þessar grunnreglur gilda um málsmeðferð hjá innheimtumanni ríkissjóðs líkt og hjá öðrum stjórnvöldum.
Ef gjaldandi er ósáttur við ákvörðun innheimtumanns ríkissjóðs eru honum leiðir færar til að fá hana endurskoðaða innan stjórnsýslunnar.
Stjórnsýslukæra
Hægt er að fá ákvarðanir innheimtumanns ríkissjóðs endurskoðaðar með stjórnsýslukæru til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Kæra verður ákvörðun innan þriggja mánaða frá því að aðila máls er tilkynnt um ákvörðun.
Einnig er hægt að fara fram á endurupptöku ákvörðunar hjá innheimtumanni.
Umboðsmaður Alþingis
Umboðsmaður Alþingis er kosinn af Alþingi til að hafa sjálfstætt eftirlit með stjórnsýslu landsins. Hann gætir þess að stjórnvöld virði rétt borgara landsins með frumkvæðisathugunum. Borgarar geta kvartað yfir meðferð stjórnvalda við umboðsmann eftir að hafa tæmt allar kæruleiðir innan stjórnsýslunnar. Kvörtun verður að bera upp við umboðsmann Alþingis innan árs frá því að endanleg ákvörðun stjórnsýslunnar liggur fyrir.