Endurgreiðsla
Launamaður getur sótt um endurgreiðslu á staðgreiðslu til ríkisskattstjóra þegar hann hefur sannanlega greitt hærri staðgreiðslu en honum bar miðað við væntanlega álagða skatta og gjöld. Heimild ríkisskattstjóra til að endurgreiða staðgreiðslu að hluta eða öllu leyti nær þó eingöngu til eftirtalinna tilvika:
- Umsækjandi hefur eða mun stunda nám í a.m.k. fjóra mánuði á staðgreiðsluárinu og staðgreiðsla hans í heild á staðgreiðsluárinu mun leiða til a.m.k. 20% hærri staðgreiðslu en væntanlega álagðir skattar og gjöld vegna tekjuársins munu nema.
- Starfs- eða launabreyting eða aldur umsækjanda mun skerða tekjur hans verulega á þeim hluta staðgreiðsluársins sem eftir er, á þann veg að staðgreiðsla hans í heild á staðgreiðsluárinu muni leiða til a.m.k. 20% hærri staðgreiðslu en væntanlega álagðir skattar og gjöld vegna tekjuársins munu nema.
- Maki umsækjanda hefur látist á árinu og staðgreiðsla hans í heild á staðgreiðsluárinu mun leiða til a.m.k. 20% hærri staðgreiðslu en væntanlega álagðir skattar og gjöld vegna tekjuársins munu nema.
- Umsækjandi hefur veikst eða slasast á árinu og launabreyting vegna þessa mun skerða tekjur hans verulega á þeim hluta staðgreiðsluársins sem eftir er, á þann veg að staðgreiðsla hans í heild á staðgreiðsluárinu muni leiða til a.m.k. 20% hærri staðgreiðslu en væntanlega álagðir skattar og gjöld vegna tekjuársins munu nema.
- Hluti tekna umsækjanda er skattlagður í hæsta skattþrepi en tekjur aðila sem hann er samskattaður með ná ekki hæsta skattþrepi. Staðgreiðsla sem innt hefur verið af hendi er þá endurreiknuð með tilliti til millifærslu á milli þrepa hjá samsköttuðum í álagningu. Slík endurgreiðsla skal þó aldrei nema lægri fjárhæð en 50.000 kr. eða hærri fjárhæð en 100.000 kr.
Sækja skal skriflega um endurgreiðslu staðgreiðslu til ríkisskattstjóra og skal rökstyðja ósk um endurgreiðslu. Á umsókn, sem sett er fram á sérstöku eyðublaði og ríkisskattstjóri lætur gera, skal koma fram rökstuðningur fyrir kröfum samkvæmt þessari grein. Umsókn skulu fylgja fullnægjandi gögn til stuðnings kröfunni. Hægt er að sækja um endurgreiðslu staðgreiðslu á eyðublaðinu RSK 5.09 á tímabilinu 1. október til 1.mars. Ríkisskattstjóri skal úrskurða um umsókn launamanns og er sá úrskurður endanleg ákvörðun í málinu.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Endurgreiðsla staðgreiðslu – 18. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda
Skattstigi manna – 4. tl. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Eyðublöð
Umsókn um endurgreiðslu á staðgreiddum opinberum gjöldum - RSK 5.09