Virðisaukaskattur
Endurgreiðsla VSK af vinnu við íbúðarhúsnæði
Eigendum íbúðarhúsnæðis er endurgreiddur sá virðisaukaskattur sem þeir greiða af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds. Endurgreiðsluhlutfall er 60%. Á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 er endurgreiðsluhlutfall þó 100% auk þess sem endurgreiðsluheimild hefur verið útvíkkuð vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af efni eða vinnu stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá.
Endurgreiðslan er m.a. háð framlagningu fullgildra reikninga frá seljanda þjónustunnar, þ.m.t. verður seljandi þjónustunnar að vera skráður á virðisaukaskattsskrá (vera með opið VSK-númer) á þeim tíma þegar vinnan er innt af hendi. Kaupandi þjónustunnar getur gengið úr skugga um hvort aðili er með opið VSK-númer með því að fletta upp kennitölu hans eða nafni.
Upplýsingar um tímabundna hækkun endurgreiðslu VSK vegna heimsfaraldurs kórónuveiru
Uppfletting á kennitölu eða nafni
Af hvaða vinnu er endurgreitt?
Endurgreiðslan nær til vinnu manna á byggingarstað íbúðarhúsnæðis við nýbyggingu þess, endurbætur eða viðhald. Ekki er unnt að telja tæmandi talningu þá vinnu sem fellur undir ákvæðið en almennt fellur undir ákvæðið öll sú vinna sem fram fer á staðnum, þó ekki sú vinna sem alla jafna er unnin á verkstæði eða vinna stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla sem eru skráningarskyldar í vinnuvélaskrá.
Endurgreiðslan tekur ekki til efniskaupa en þó er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Á tímabilinu 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 fæst einnig endurgreiddur virðisaukaskattur vegna kaupa á hleðslustöð fyrir bifreiðar til uppsetningar í eða við íbúðarhúsnæði.
Endurgreiðsluhlutfall
Hlutfall endurgreiðslu vegna vinnu sem unnin er á byggingarstað nemur 60% greidds virðisaukaskatts. Virðisaukaskattur vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis er endurgreiddur að fullu. Á tímabilinu 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 nemur hlutfall endurgreiðslu 100% vegna kaupa á hleðslustöð fyrir bifreiðar til uppsetningar í eða við íbúðarhúsnæði og jafnframt af vinnu við uppsetningu hleðslustöðvarinnar.
Umsókn og fylgigögn
Þeir sem rétt eiga á endurgreiðslu skulu senda ríkisskattstjóra endurgreiðslubeiðni á rafrænu formi í gegnum þjónustusíðu sína www.skattur.is með rafrænum skilríkjum eða veflykli. Umsókn er að finna undir flipanum „Samskipti“, „Umsóknir“ og þar „Virðisaukaskattur“.
Reikningar sem grundvalla beiðni um endurgreiðslu skal skanna inn og hengja við umsókn áður en umsókn er send ríkisskattstjóra. Vanti umsækjanda upplýsingar um hvernig komast á inn á þjónustusíðuna er hægt að lesa sér til um rafræn skilríki eða óska eftir að fá veflykil sendan í heimabanka eða á lögheimilisfang umsækjanda.
Tímamörk á endurgreiðslu
Ekki er hægt að sækja um endurgreiðslur lengra aftur í tímann en sex ár talið frá því að endurgreiðsluréttur stofnaðist.
Afgreiðslutími
Endurgreiðslur vegna endurbóta og viðhalds á að afgreiða innan þrjátíu daga frá móttöku, en endurgreiðslur vegna nýbygginga fara fram á tveggja mánaða fresti, þ.e. 5. apríl vegna beiðna sem berast í janúar og febrúar, 5. júní vegna beiðna sem berast í mars og apríl o.s.frv.
Sækja um endurgreiðslu
Opna umsókn | Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. |
Opna umsókn | Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við nýbyggingu á íbúðarhúsnæði til eigin nota. |
Opna umsókn | Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bifreiðar. |
Endurgreiðslur til erlendis búsettra (Tax-free)
Aðilar búsettir erlendis geta fengið endurgreiddan hluta virðisaukaskatts af varningi sem þeir festa kaup á hér á landi. Skilyrði fyrir endurgreiðslunni er að kaupandi fari með varninginn úr landi innan þriggja mánaða frá kaupdegi og honum sé framvísað ásamt tilskildum endurgreiðslugögnum hjá endurgreiðslufyrirtæki eða eftir atvikum tollyfirvöldum við brottför. Kaupverð vörunnar verður þó að vera minnst 6.000 kr. Aðilar, sem til þess hafa hlotið leyfi fjármálaráðuneytis, annast endurgreiðslur þessar, en ríkisskattstjóri annast svo uppgjör við endurgreiðsluaðilann.
Almennt um virðisaukaskatt
Virðisaukaskattur er innheimtur af innlendum viðskiptum á öllum stigum og við innflutning á vöru og þjónustu. Sama vara eða þjónusta er þó ekki margsköttuð því að hvert einstakt fyrirtæki skilar aðeins skatti af mismuni kaupverðs og söluverðs, þ.e. af þeim virðisauka sem myndast í fyrirtækinu, og þaðan er heitið virðisaukaskattur dregið. Virðisaukaskattur er almennur neysluskattur því það er neytandinn (kaupandi vöru eða þjónustu) sem endanlega greiðir skattinn. Seljandi vörunnar eða þjónustunnar sér hins vegar um að innheimta skattinn og skila honum í ríkissjóð. Seljandinn er skyldugur til þess að innheimta skattinn og því er sagt að hann sé virðisaukaskattsskyldur. Virðisaukaskattur er kallaður óbeinn skattur vegna þess að kaupendur vöru og þjónustu borga skattinn ekki beint í ríkissjóð, eins og t.d. tekjuskatt, heldur óbeint með neyslu sinni.
Sjá nánar „Almennt um VSK“
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Endurgreiðslur til erlendis búsettra – 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Endurgreiðslur til erlendis búsettra – reglugerð nr. 294/1997, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis
Endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis – 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis – XV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis – reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslur virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði
Endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis – reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga
Einu sinni var...
Endurgreiðslan var 100% af vinnu sem innt var af hendi á árunum
1990-1996 en lækkaði þá í 60% í tengslum við niðurfellingu vörugjalds af m.a.
byggingarefnum. Hinn 1. mars 2009 hækkaði endurgreiðsluhlutfallið tímabundið í
100% og endurgreiðslan jafnframt látin taka til vinnu manna á byggingarstað
frístundahúsnæðis og af sérfræðiþjónustu, þ.e. vegna þjónustu verkfræðinga og
arkitekta vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu íbúðar- eða
frístundahúsnæðis. Sú endurgreiðsla féll niður hinn til 1. janúar 2015 og
endurgreiðsluhlutfallið lækkað á ný í 60%.