Fyrirframgreiðsla þinggjalda
Þar til álagning hvers árs liggur fyrir, skal hver gjaldandi greiða fyrirfram upp í þau gjöld ársins sem eru utan staðgreiðslu. Auðlegðarskattur er eina gjaldið sem þannig er innheimt hjá einstaklingum (Skatturinn var lagður á gjaldárin 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014). Verði álagningu ekki lokið á tilsettum tíma, skal greiða sömu mánaðargreiðslu og að ofan greinir á lögbundnum gjalddögum skatta, allt þar til álagning hefur farið fram. Eindagi fyrirframgreiðslu er 15 dögum eftir gjalddaga.
Dráttarvextir eru reiknaðir af því sem gjaldfallið er, ef ekki hefur verið greitt innan mánaðar frá gjalddaga. Ógreiddir dráttarvextir teljast með eftirstöðvum viðkomandi ára.
Innborgun til greiðslu gjalda utan staðgreiðslu gengur fyrst til lækkunar á elstu skuld.
Launagreiðanda er skylt að halda eftir fjárhæð af launum starfsmanna sem nægir til greiðslu opinberra gjalda þeirra, þó aldrei hærri fjárhæð en nemur 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til viðkomandi starfsmanns að meðtalinni staðgreiðslu. Staðgreiðslu er skylt að draga af launum en hún hefur forgang umfram ofangreindar skuldir. Athygli er þó vakin á því, að takmörkun þessi breytir í engu viðurlögum vegna vanefnda á skattkröfu. Ef launagreiðandi vanrækir að halda eftir af launum, ber hann sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess fjár sem honum bar að halda eftir.
Innheimtufé ber að skila innan 6 daga frá útborgunardegi. Þegar gjaldendum eru reiknaðir dráttarvextir eingöngu vegna vanskila launagreiðanda á innheimtufé ber launagreiðandi ábyrgð á greiðslu þeirra dráttarvaxta. Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun á þeirri fjárhæð þinggjalda sem honum er gert að greiða fram að álagningu hvers árs. Ríkisskattstjóri úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar.
Ríkisskattstjóri veitir upplýsingar um greiðsluskyldu fyrirframgreiðslu fram að álagningu hvers árs.
Sýslumenn utan höfuðborgarsvæðisins og ríkisskattstjóri veita upplýsingar um greiðslustöðu, útborgun inneigna og innheimtu skulda.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Skylda launagreiðanda – 115. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Staðgreiðsluskylda – lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda
Sjálfskuldarábyrgð launagreiðanda – 2. mgr. 115. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Gjalddagi og eindagi fyrirframgreiðslu – 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt