Auðlegðarskattur
Auðlegðarskattur var lagður á nettóeign framteljanda, þ.e. allar eignir að frádregnum öllum skuldum. Skatturinn var lagður á gjaldárin 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014. Auðlegðarskatturinn var lagður á hreina eign gjaldanda, þ.e. frá verðmæti heildareigna voru dregnar heildarskuldir gjaldanda.
Hlutabréfaeign var talin fram á nafnverði til auðlegðarskatts. Væri raunverð bréfanna hærra en nafnverð kom viðbótin til skattlagningar ári síðar, sem Viðbótarauðlegðarskattur, þó ekki viðbót miðað við raunvirði hlutabréfa í árslok 2013. Sama gilti um mun á raunvirði og framtöldu verðmæti erlendra hlutabréfa (sem er oftast kaupverð).
Hlutabréf í félagi sem skráð var í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði var talið fram á markaðsverðmæti við ákvörðun auðlegðarskattsstofns. Ef félagið var ekki skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði var miða við hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags.
Skatthlutfall
Við álagningu gjaldárið 2010 var lagður 1,25% auðlegðarskattur á eign einhleypings yfir 90.000.000 kr. og 120.000.000 kr. eign hjóna og samskattaðra.
Við álagningu gjaldárið 2011 var lagður 1,50% auðlegðarskattur á eign einhleypings yfir 75.000.000 kr. og 100.000.000 kr. eign hjóna og samskattaðra.
Auðlegðarskattur manna reiknaðist þannig við álagningu 2012, 2013 og 2014:
- Af auðlegðarskattsstofni einstaklings að 75.000.000 kr. og samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna að 100.000.000 kr. greiddist enginn skattur.
- Af auðlegðarskattsstofni yfir 75.000.000 kr. að 150.000.000 kr. hjá einstaklingi og yfir 100.000.000 kr. að 200.000.000 kr. af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiddust 1,5%.
- Af því sem umfram er 150.000.000 kr. hjá einstaklingi og 200.000.000 kr. af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiddust 2%.
Fjárhæðarmörk hjá eftirlifandi maka sem sat í óskiptu búi voru þau sömu og miðað var við hjá hjónum eða samsköttuðu sambýlisfólki í fimm ár frá andlátsári, enda hefði eftirlifandi maki ekki hafið sambúð að nýju.
Viðbótarauðlegðarskattur
Viðbótarauðlegðarskattur var lagður á skattstofn sem var mismunur á nafnverði og raunvirði hlutabréfa í eigu framteljanda í lok árs 2009, 2010, 2011 og 2012 miðað við stöðu félags samkvæmt skattframtali þess 2010, 2011, 2012 og 2013. Viðbótarauðlegðarskattur var lagður á eign umfram framangreind viðmiðunarmörk.
Viðbótarauðlegðarskattur var 1,25% við álagningu gjaldárið 2011 og 1,5% við álagningu gjaldárið 2012.
Við álagningu gjaldárin 2013 og 2014 var viðbótarauðlegðarskattur 1,5% af skattstofni á bilinu 75.000.000 kr. að 150.000.000 kr. hjá einhleypum og á bilinu 100.000.000 kr. að 200.000.000 kr. hjá hjónum og samsköttuðum, en 2% af skattstofni yfir þessum mörkum.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt
Ákvæði til bráðabirgða XXXIX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt
Ákvæði til bráðabirgða XLVII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt