Kaup á fyrstu íbúð

Myndin er teiknuð og á henni eru þrjár fjölskyldur

Frá 1. júlí 2017 er þeim einstaklingum sem kaupa/byggja sér íbúðarhúsnæði í fyrsta skipti annars vegar heimilt að fá útborguð viðbótariðgjöld sem greidd hafa verið til séreignarlífeyrissjóðs og hins vegar að greiða iðgjöld frá mánuði til mánaðar inn á lán sem tryggð eru með veði í íbúðinni. 

Information available in English

Til að geta nýtt sér heimildina þurfa kaupin að vera á íbúðarhúsnæði eða nýbyggingu en ekki kaup á lóð, búseturétti eða endurbætur á fasteign . Skilyrði er m.a. að umsækjandi hafi ekki átt íbúðarhúsnæði áður og að hann afli sér a.m.k. 30% hlutar í slíkri eign. Þá þarf umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu fasteign að berast ríkisskattstjóra innan tólf mánaða frá undirritun kaupsamnings. 

Ákveðið hámark er á árlegri fjárhæð, bæði í krónum talið og sem hlutfall af launum, og samtals getur úttektartímabil spannað tíu samfelld ár talið frá því þegar ráðstöfun hefst fyrst.

Umsókn er rafræn á þjónustuvef ríkisskattstjóra

Ítarlegri leiðbeiningar og upplýsingar

 

Hverjir geta sótt um?

Unnt er að sækja um eftir að viðkomandi hefur keypt sína fyrstu íbúð og undirritað kaupsamning þar um, eða þegar nýbygging hefur fengið fastanúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Að þessu uppfylltu er sótt um útborgun og/eða greiðslu inn á veðlán. Umsækjandi velur upphafstímamark óski hann eftir útborgun á þeim iðgjöldum sem greidd hafa verið fram að kaupdegi íbúðarinnar og er heimilt að taka út iðgjöld allt aftur til 1. júlí 2014. Ef óskað er eftir greiðslu inn á veðlán tekur sú ráðstöfun gildi frá og með umsóknarmánuði. Mest getur ráðstöfun á iðgjöldum annað hvort með útborgun og/eða greiðslu inn á lán staðið samtals í tíu ára samfellt tímabil.

Ráðstöfun iðgjalda vegna kaupa á fyrstu íbúð getur aldrei spannað lengra tímabil en tíu ár samfellt og er upphafstímamarkið frá því að ráðstöfun hófst fyrst.

Útborgun og ráðstöfun inn á lán

Verja má uppsöfnuðum iðgjöldum til kaupa á fyrstu íbúð eða nýbyggingar og/eða ráðstafa iðgjöldum inn á höfuðstól lána sem tryggð eru með veði í íbúðinni. Ef um er að ræða lán sem ekki eru verðtryggð er jafnframt heimilt að nýta iðgjöld sem afborgun inn á þau, samkvæmt nánari reglum þar um. 

Gögn sem þurfa að fylgja umsókn

Með umsókn um ráðstöfun á séreignarsparnaði þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á að skilyrði séu uppfyllt. Almenna reglan er að leggja þarf fram með umsókn um nýtingu á séreignarsparnaði í tengslum við kaup á fyrstu íbúð:

  • þinglýstan kaupsamning

Sótt er um á www.skattur.is og ekki er unnt að ljúka við umsóknina nema að hafa við hendina þau gögn sem óskað er eftir.

Hvar er unnt að nálgast umbeðin gögn?

Þinglýstan kaupsamning fær umsækjandi hjá fasteignasala sem sá um viðskiptin eða hjá sýslumanni.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Lög um fyrstu íbúð – lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð 

Reglugerð um fyrstu íbúð – reglugerð nr. 555/2017 um samræmt verklag við ráðstöfun iðgjalda til séreignarsparnaðar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð

 

Annað

Leiðbeiningar 
Spurt og svarað

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum