„Allir vinna“ - Tímabundin hækkun á endurgreiðslum VSK
Meðal þeirra ráðstafana sem gripið verður til í því skyni að bregðast við efnahagsástandinu af völdum kórónuveirunnar eru þær að hækka tímabundið endurgreiðslu virðisaukaskatts, úr 60% í 100%.
Endurgreiðslan er af vinnu manna við íbúðarhúsnæði sem veitt er á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021. Heimild til endurgreiðslu verður jafnframt víðtækari á þessu tímabili en áður og tekur m.a. til frístundahúsnæðis, mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka og bílaviðgerða.
Opið fyrir umsóknir
Sótt er um endurgreiðslur á þjónustusíðu hvers umsækjanda á þjónustuvef Skattsins. Umsókn er að finna undir flipanum „Samskipti“, „Umsóknir“ og þar „Virðisaukaskattur“.
Opna umsókn | Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. |
Opna umsókn | Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við nýbyggingu á íbúðarhúsnæði til eigin nota. |
Opna umsókn | Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bifreiðar. |
Í hinum nýju lögum felst nánar tiltekið að endurgreiddur verður 100% virðisaukaskattur sem greiddur hefur verið af vinnu manna sem innt er af hendi innan tímabilsins frá og með 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 af eftirfarandi:
Frístundahúsnæði
Vinnu manna á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis. Með frístundahúsnæði er átt við húsnæði eins og það er skilgreint í lögum nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, og að húsnæðið sé skráð sem frístundahús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.
Hönnun og eftirlit
Þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingu, viðhaldi og endurbótum á íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði.
Heimilisaðstoð og regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis
Vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Endurgreiðsla vegna þessa tekur jafnt til eigenda sem leigjenda íbúðarhúsnæðis.
Bílaviðgerðir
Vinnu manna vegna bílaviðgerðar, bílamálningar og bílaréttinga fólksbifreiða. Rétt til endurgreiðslu vegna þessa eiga einstaklingar utan rekstrar og skilyrði fyrir endurgreiðslu eru þau að fólksbifreið sé í eigu umsækjenda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts.
Mannvirki félagasamtaka
Vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu mannúðar- og líknarfélaga, íþróttafélaga, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnardeilda og einstaka félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna. Einnig er endurgreiddur virðisaukaskattur af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki. Endurgreiðsla þessi er bundin tilteknum skilyrðum sem koma nánar fram í lögunum.
Forsendur
Endurgreiðsla virðisaukaskatts samkvæmt þessu tekur ekki til virðisaukaskatts sem heimilt er að færa til innskatts í skattskyldum rekstri, sbr. VII. kafla laga um virðisaukaskatt. Þá er það einnig skilyrði fyrir endurgreiðslu að seljandi þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskiptin eiga sér stað.