VSK fyrir byrjendur
Virðisaukaskattur var tekinn upp með lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem tóku gildi 1. janúar 1990 og leystu af hólmi áðurgildandi söluskattslög. Skatturinn er vörsluskattur og almennur neysluskattur sem innheimtur er af innlendum viðskiptum á öllum stigum. Hann er einnig innheimtur við innflutning vöru og þjónustu.
Virðisaukaskattur af viðskiptum innanlands fellur undir almenna skattkerfið, þ.e.a.s. ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd. Virðisaukaskattur af innflutningi fellur hins vegar undir tollakerfið, þ. e. tollstjóra og ríkistollanefnd.
Allar vörur og öll sú þjónusta, sem ekki er sérstaklega undanþegin skattinum, er skattskyld. Allir rekstraraðilar, sem hafa með höndum sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu, eiga að innheimta og skila virðisaukaskatti.
Sama vara eða þjónusta er ekki margsköttuð því að hvert einstakt fyrirtæki (skattaðili) skilar aðeins skatti af verðmætisaukningunni í því fyrirtæki, þ. e. af þeim virðisauka sem myndast í fyrirtækinu. Þetta er gert þannig að hver skattaðili innheimtir virðisaukaskatt af sölu sinni (útskatt). En við skil á skattinum í ríkissjóð dregur hann frá þann skatt sem hann hefur greitt öðrum skattaðilum eða tollstjóra við kaup eða eigin innflutning á vörum og öðrum aðföngum til nota í rekstrinum (innskatt).
Skattskyld vara og þjónusta
Meginreglan er sú að öll vörusala í atvinnuskyni er skattskyld. Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og er vöruhugtakið því mjög víðtækt. Einnig er öll vinna og þjónusta skattskyld nema viðkomandi þjónusta sé sérstaklega undanþegin. Tæmandi talning á undanþeginni þjónustu/starfsemi er að finna í virðisaukaskattslögunum.
Nánari upplýsingar um skattskylda vöru og þjónustu
Skattskylda
Aðili sem í sjálfstæðri starfsemi sinni selur skattskyldar vörur eða þjónustu í atvinnuskyni hefur með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.
Aðilar sem eru með óverulegan rekstur, þ.e. sölu á vörum eða þjónustu undir 2.000.000 kr. án virðisaukaskatts á hverju 12 mánaða tímabili frá því rekstur hefst (fjárhæðin var 1.000.000 kr. til 1. janúar 2017), eru undanþegnir skráningarskyldu á virðisaukaskattsskrá. Velji þeir að vera ekki á skrá mega þeir ekki gefa út reikninga með virðisaukaskatti. Þeir sem tilgreina á einhvern hátt á reikningum sínum að virðisaukaskattur sé innifalinn, þrátt fyrir að vera undanþegnir, skulu skila skattinum í ríkissjóð.
Nánari upplýsingar um hverjir teljast skattskyldir aðilar
Tilkynningarskylda
Sérhver skattskyldur aðili skal tilkynna um starfsemi sína eða atvinnurekstur til ríkisskattstjóra á sérstöku eyðublaði, RSK 5.02, eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst.
Gæta skal vel að útfyllingu eyðublaðsins þ.e. gefa þarf upp allar umbeðnar upplýsingar. Kafli C er sérstaklega mikilvægur, en þar skal m.a. veita upplýsingar um virðisaukaskattsskylda starfsemi, undanþegna starfsemi ef við á, heimilisfang starfsstöðvar, áætlaðar tekjur fyrstu 12 mánuði rekstrar, áætluð gjöld við uppbyggingu fyrstu 12 mánuði rekstrar og tekjuskráningarform. Senda skal undirritað frumrit til ríkisskattstjóra.
Nánari upplýsingar um tilkynningarskyldu
Skattprósentur
Skattþrepin í virðisaukaskatti eru tvö, þ.e. 24% og 11%. Í virðisaukaskattslögunum er kveðið á um að tiltekin velta geti verið undanþegin virðisaukaskatti. Þannig ber sú velta í raun 0% virðisaukaskatt.
Virðisaukaskattur reiknast ofan á skattverð, þ.e. eftir að búið er að leggja á álagningu og reikna með öllum öðrum kostnaði er virðisaukaskattur lagður á.
Afreikningur virðisaukaskatts af heildarverði er 19,35% þegar um er að ræða sölu í 24% þrepi og 9,91% þegar um er að ræða sölu í 11% þrepi.
Nánari upplýsingar um hvaða vara/þjónusta er í hverju þrepi
Uppgjörstímabil og gjalddagar
Virðisaukaskattsskyldum aðilum er gert skylt að gera upp virðisaukaskatt eftir hvert uppgjörstímabil með greiðslu virðisaukaskatts ásamt rafrænni virðisaukaskattsskýrslu þar sem fram kemur m.a. skattskyld velta á uppgjörstímabilinu og samsvarandi útskattur.
Meginreglan er sú að uppgjörstímabil taki til tveggja mánaða, þ.e. janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög sem dæmi fara ávallt í tveggja mánaða skil við upphaf rekstrar. Einstaklingar sem hefja rekstur að nýju í sömu atvinnugrein og áður og voru í tveggja mánaða skilum við rekstrarlok, fara sömuleiðis í tveggja mánaða skil við upphaf rekstrar.
Einstaklingar sem hefja rekstur í fyrsta sinn byrja á því að nota almanaksárið sem uppgjörstímabil. Hafi þeir 200.000 kr. (var 150.000 kr. til 1. janúar 2017) eða meira í reiknað endurgjald á mánuði geta þeir þó óskað eftir því við skráningu að skila á tveggja mánaða fresti.
Þeir sem selja skattskyldar vörur eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. án virðisaukaskatts á heilu almanaksári (fjárhæðin var 3.000.000 kr. til 1. janúar 2017) skulu á næsta almanaksári nota það sem uppgjörstímabil ef reiknað endurgjald á mánuði er lægra en 200.000 kr. (fjárhæðin var 150.000 kr. til 1. janúar 2017). Ríkisskattstjóri tilkynnir aðila hafi hann verið færður í ársskil.
Ef sala í virðisaukaskattsskyldri starfsemi hjá aðila í ársskilum nær 4.000.000 kr. án virðisaukaskatts innan almanaksárs (var 3.000.000 kr. til 1. janúar 2017) ber honum skylda til að gera skil á næsta gjalddaga tveggja mánaða skila. Þannig gerir hann upp allan þann virðisaukaskatt sem fallið hefur á sölu hans á skattskyldum vörum eða þjónustu á því tímabili sem af er ári fram að lokum þess almenna uppgjörstímabils sem er þegar salan fór yfir 4.000.000 kr. Þaðan í frá skal hann gera upp og skila virðisaukaskattsskýrslum á tveggja mánaða fresti.
Gera þarf skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir hvert uppgjörstímabil óháð því hvort rekstur hafi verið í gangi eða legið niðri og þar með engin skattskyld velta. Að öðrum kosti má gera ráð fyrir því að velta verði áætluð og gjöld samkvæmt því. Enginn sérstakur eindagi er í virðisaukaskatti. Gjalddagi og eindagi er einn og sami dagurinn.
Skila ber virðisaukaskattsskýrslu með rafrænum skilum á skattur.is í síðasta lagi á gjalddaga.
Upplýsingar um gjalddaga og upplýsingar um skilamáta
Skattskyld velta - útskattur
Til skattskyldrar veltu á hverju uppgjörstímabili telst heildarskattverð allra vara og skattskyldrar þjónustu sem afhent hefur verið á tímabilinu. Til skattskyldrar veltu telst m.a.:
- Öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu, svo og seld vinna og þjónusta.
- Sala vöru sem seljandi hefur látið í umsýslu- eða umboðssölu telst til skattskyldrar veltu seljandans.
- Sala vöru frá umsýslu- eða umboðsmanni telst einnig til skattskyldrar veltu umsýslu- eða umboðsmannsins.
- Skipti á vörum eða þjónustu.
- Andvirði vöru sem fyrirtæki selur eða framleiðir og eigandi tekur út úr því til eigin nota. Það sama gildir ef fyrirtæki innir af hendi skattskylda þjónustu fyrir eiganda.
- Andvirði vöru og þjónustu sem fyrirtækið notar fyrir starfsmenn (hlunnindi) eða til risnu, gjafa o.fl.
Útskattur er sá skattur sem seljandi vöru og þjónustu innheimtir af skattskyldri veltu sinni, en skattskylda veltan er metin til verðs á skattverði. Skatturinn leggst á skattverðið og er 24%, nema undantekningar um 11% skatt eigi við.
Dæmi um hvernig virðisaukaskattur reiknast á vöruverð
Ef verð vöru eða þjónustu, sem fellur undir 24% skattþrepið, er gefið upp með virðisaukaskatti er skatturinn 19,35% af því verði sem kaupandi greiðir. Hins vegar ef um er að ræða vöru eða þjónustu sem fellur undir 11% skattþrepið er skatturinn 9,91% af því verði sem kaupandi greiðir.
Innskattur
Innskattur er sá virðisaukaskattur sem virðisaukaskattsskyldur aðili, skráður á virðisaukaskattsskrá, greiðir öðrum skattskyldum aðilum við kaup eða Tollstjóra við innflutning á vörum eða þjónustu (aðföngum) til nota í skattskyldum rekstri sínum.
Rekstraraðilar hafa heimild til að draga innskatt frá útskatti, en til innskatts má telja virðisaukaskatt af svo til öllum aðföngum rekstraraðila sem varða skattskylda sölu þeirra. Í nokkrum tilvikum er frádráttarheimildin þó takmörkuð eða engin.
Innskattur er því aðeins frádráttarbær að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Innskattsfærsla verður alltaf að byggja á fullgildu innskattsskjali.
Nánari upplýsingar um innskatt
Skráning tekna
Tekjuskráning skattskylds aðila verður að byggja á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram. Með öruggu kerfi í þessu sambandi er fyrst og fremst átt við notkun sölureikninga eða sjóðvéla, enda sé a.m.k. lágmarkskröfum um notkun þeirra fullnægt.
Tegund tekjuskráningar
Tekjuskráning skattskylds aðila getur verið með eftirfarandi hætti:
- Sölureikningar, þ.m.t. rafrænir sölureikningar: Almenna reglan er sú að skylt er að gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu.
- Gíróseðlar: Þeir sem mega gefa út sölureikning síðasta dag hvers mánaðar vegna reikningsviðskipta í þeim mánuði geta notað gíróseðla í stað sölureikninga.
- Afreikningar: Bændur, útgerðaraðilar og iðnfyrirtæki geta lagt til grundvallar tekjuskráningu sinni af reikninga (innleggsnótur) útgefna af afurða - eða vinnslustöð sem tekur framleiðsluvörur þeirra til vinnslu eða endursölu.
- Kreditreikningar: Kreditreikningur er sérstök tegund sölu - eða afreiknings og gefinn út við bakfærslu eða leiðréttingu á áður tekjufærðri sölu. Sé tekjuskráning í formi gíróseðla þarf aðili að hafa sérstök kreditreikningseyðublöð.
- Sjóðvélar: Smásöluverslanir og þjónustusalar, sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda, mega í stað þess að gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu skrá söluna í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram.
- Annars konar tekjuskráning: Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi getur ríkisskattstjóri heimilað notkun annars konar tekjuskráningarkerfis.
Afsöl og kaupsamningar eru ekki gild tekjuskráningargögn.
Tímamark tekjuskráningar
Meginreglan um tímamark tekjuskráningar byggir á svokallaðri afhendingarreglu. Þannig skal seljandi við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu gefa út sölureikning samtímis og sala eða afhending á sér stað, þ.m.t. hvers konar afborgunar- og lánaviðskipti og afhendingu til starfsmanna. Greiði kaupandi að fullu eða að hluta andvirði skattskyldrar vöru eða þjónustu áður en afhending fer fram er seljanda við móttöku greiðslu heimilt að gefa út sölureikning vegna viðskiptanna. Ef það er ekki gert ber seljanda að gefa út sérstaka kvittun fyrir innborguninni við móttöku hennar, auk útgáfu sölureiknings við afhendingu hins selda.
Nánari upplýsingar um skráningu tekna
Bókhald
Allir sem stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi skulu færa skýrt og aðgengilegt bókhald yfir kaup og sölu á skattskyldri vöru og þjónustu til þess að geta gert upp þann virðisaukaskatt sem greiða á til ríkissjóðs. Í bókhaldinu verður að koma greinilega fram hverjar þær fjárhæðir eru sem skattskyldur aðili á að gefa upp á virðisaukaskattsskýrslu í lok hvers uppgjörstímabils. Bókhald vegna virðisaukaskatts fyrir hvert uppgjörstímabil skal færa áður en virðisaukaskattsskýrsla tímabilsins er send enda byggir hún á bókhaldinu og gögnum þess. Ávallt skal vera hægt að rekja einstakar fjárhæðir í uppgjörsgögnum til þeirra færslna og fylgiskjala sem byggt er á í bókhaldi. Þá skal vera hægt að rekja færslur í bókhaldi til þeirra undirbóka sem kunna að vera haldnar. Þannig skulu skattyfirvöld jafnan geta gengið úr skugga um réttmæti virðisaukaskattsskýrslna og þeirra fylgiskjala og uppgjörsgagna sem að
Nánari upplýsingar um bókhald virðisaukaskattsskyldra aðila
Rafræn skil
Skil (vefskil) á virðisaukaskatti skulu vera rafræn. Með því er átt við að virðisaukaskattsskýrslur eru sendar rafrænt til skattyfirvalda, m.a. um þjónustuvef ríkisskattstjóra, skattur.is. Greiðsla fer svo fram rafrænt í vefbanka. Hægt er að fá heimild hjá ríkisskattstjóra til eins árs í senn til að skila á pappírsformi ef gildar ástæður eru fyrir hendi að hans mati.
Sótt er um rafræn skil á þjónustuvef ríkisskattstjóra www.skattur.is. Skýrslugerðin sjálf er bæði einföld og fljótleg.
Nánari upplýsingar um rafræn skil
Ítarefni:
Leiðbeiningar um virðisaukaskatt
Innskattur - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 26-31
Rafræn skil - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 35
Skattprósentur - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 5
Skattskyld velta - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 23-25
Skattskyld vinna og þjónusta - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 6-7
Skattskyldir aðilar - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 8-9
Uppgjörstímabil - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 23-25