Um vánúmer

Vánúmer er virðisaukaskattsnúmer sem ríkisskattstjóri hefur afskráð með úrskurði á grundvelli 27. gr. A laga um virðisaukaskatt, sem hljóðar svo:

„Hafi skattaðili sætt áætlun virðisaukaskatts skv. 25. eða 26. gr. samfellt í tvö uppgjörstímabil eða lengur er ríkisskattstjóra heimilt að fella hann af virðisaukaskattsskrá.“

Seljandi vöru/þjónustu

Skattaðili sem hefur verið úrskurðaður af virðisaukaskattsskrá getur ekki skráð sig aftur nema hann hafi fyrst gert fullnægjandi skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti.

Þó getur ríkisskattstjóri heimilað skráningu leggi skattaðili fram tryggingu fyrir endurákvörðuðum virðisaukaskatti og öðrum innheimtukostnaði. Skal hún vera í formi skilyrðislausrar sjálfsskuldarábyrgðar banka.

Hafi skattaðili sem úrskurðaður var af virðisaukaskattsskrá verið skráður að nýju skal hann nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil í að minnsta kosti tvö ár. Geri hann fullnægjandi skil á þessu tímabili skal hann að því loknu standa skil á virðisaukaskatti samkvæmt almennum reglum.

Hvað þýðir afskráning fyrir kaupandann?

Innskattur

Skilyrði fyrir því að færa greiddan virðisaukaskatt sem innskatt er að seljandi sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af reikningum sem gefnir eru út eftir að virðisaukaskattsnúmeri seljanda er afskráð. Gildir það hvort heldur sem seljandi afskráði sig sjálfur eða ríkisskattstjóri úrskurðaði hann af skrá.

Endurgreiðslur

Skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts er að seljandi sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Óheimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt samkvæmt reikningum sem gefnir eru út eftir að virðisaukaskattsnúmeri seljanda er afskráð. Gildir það hvort heldur sem seljandi afskráði sig sjálfur eða ríkisskattstjóri úrskurðaði hann af skrá.

Leiðrétting

Greiðandi, sem ekki hefur getað fært innskatt eða fengið endurgreiddan virðisaukaskatt samkvæmt reikningi frá seljanda með afskráð virðisaukaskattsnúmer, getur sótt um leiðréttingu eftir að vánúmer hefur verið endurskráð.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Úrskurðað af virðisaukaskattsskrá – 27. gr. A, laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Áætlanir í virðisaukaskatti – 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Innskattur, skilyrði – 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Endurgreiðslur, skilyrði – 10. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum