Gistináttaskattur

Aðgerðir vegna Covid-19

Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru er gistináttaskattur felldur niður tímabundið á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021 vegna þeirrar gistiþjónustu sem er veitt og nýtt innan framangreinds tímabils.

Almennt um gistináttaskatt

Gistináttaskattur er sérstakur skattur sem lagður er á sölu gistingar. Skatturinn var tekinn upp 1. janúar 2012 og er lagður á hverja selda gistináttaeiningu. Slík eining er skilgreind sem leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring. Með gistiaðstöðu er átt við herbergi, húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, að svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar.

Gistináttaskattur er 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu (hækkaði úr 100 kr. í 300 kr. hinn 1. september 2017). Tilgreina ber gistináttaskatt (e. lodging tax) á sölureikningi eða greiðslukvittun og myndar hann stofn til virðisaukaskatts og fellur í sama virðisaukaskattsþrep og gistingin.

Skil á gistináttaskatti eru rafræn. Með rafrænum skilum er m.a. hægt að skila skýrslu, stofna kröfu til greiðslu í heimabanka, gera leiðréttingar og fá yfirlit. Áminningar um eindaga eru sendar í tölvupósti, auk orðsendinga og annarra tilkynninga.

Gistináttaeining

Gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu (gistirými) í allt að einn sólarhring. Gistirýmið er húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, íbúðir og herbergi. Afmarka verður hverju sinni það gistirými sem verið er að leigja út. Almennt er ekki miðað við einstakling, en gistirýmið er þó í ákveðnum tilvikum afmörkuð við svefnrými fyrir hvern einstakling fyrir sig. Tilhögun greiðslu ræður ekki úrslitum í þessu sambandi.

Hótel

Herbergi á hótelum teljast til gistirýma í þessu sambandi. Á það einnig við þegar heil hæð er leigð út sem og þegar hótel er leigt einum aðila. Fjöldi herbergja í hóteli eru því fjöldi gistirýma þó svo að hótelið sé leigt út í heilu lagi. Ef hótel leigja út íbúðir teljast þær hver og ein gistirými.

Gistiheimili

Herbergi sem leigð eru sérstaklega út teljast til gistirýma. Ef hvert rúm/svefnpokapláss er leigt út sérstaklega telst það gistirými. Ef gistiheimili er leigt út í heilu lagi er hvert herbergi gistirými. Í slíkum tilvikum er þannig ekki miðað við fjölda svefnstæða, þótt almennt séu þau leigð út sérstaklega.

Íbúðir og orlofshús

Hver íbúð telst gistirými ef hún er leigð út í einu lagi. Ef fleiri en ein íbúð er í húsnæði telst hver íbúð fyrir sig sem gistirými sem miða skal gistináttaeininguna við. Á það einnig við þó að báðar eða allar íbúðirnar í húsnæðinu séu leigðar sama aðila. Ef herbergi í íbúð er leigt sérstaklega telst hvert herbergi gistináttaeining.

Tjaldsvæði

Á tjaldsvæðum er stæðið undir hvert tjald gistirýmið. Stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi eru með sama hætti það gistirými sem miða ber innheimtu gistináttaskatts við. Tjaldsvæði í heild sinni telst ekki gistirými í þessu sambandi.

Reikningaútgáfa

Tilgreina skal gistináttaskatt á sölureikningi eða greiðslukvittun og myndar hann stofn til virðisaukaskatts. Á reikningnum þarf orðið gistináttaskattur að koma fram og heildarfjárhæð hans. Ekki er gerð krafa um að númerið á lögum um gistináttaskatt sé tilgreint.

Í stað þess að gistináttaskattur sé sundurliðaður sérstaklega sem einn af nokkrum liðum sem mynda heildarfjárhæð reiknings er heimilt að tilgreina gistináttaskattinn neðst á reikningi þar sem fram kæmi að hann væri innifalinn í heildarfjárhæðinni. Þannig gæti reikningur sem er í erlendum gjaldmiðli haft texta neðst sem segði að gistináttaskattur (lodging tax) væri innifalinn í reikningsfjárhæðinni og heildarfjárhæð hans tilgreind í íslenskum krónum. Ekki nægir að tilgreina fjárhæð hans fyrir hverja nótt, heldur verður heildarfjárhæð álagðs gistináttaskatts sem lagður er á reikninginn alltaf að koma fram.

Skráning á stofnskrá

Skattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en hún hefst.

Skráningin er rafræn. Skattskyldur aðili skráir sig inn á stofnskrána af þjónustusíðu sinni á www.skattur.is.

Fjöldi gistirýma

Við tilkynningu inn á stofnskrá gistináttaskatts skal skrá fjölda gistirýma sem í boði eru, sundurliðað eftir flokkum, svo sem fjölda húsa í útleigu eða fjölda herbergja í útleigu. Ekki skal skrá fjölda herbergja í húsi sem leigt er út í heilu lagi enda gerð grein fyrir því í fjölda húsa.

Gera þarf grein fyrir áætluðum fjölda tjaldstæða á tjaldsvæði. Stæði undir tjaldvagna, fellihýsi og húsbíla falla hér undir. Ef fjöldi tjaldstæða liggur ekki fyrir skal færa hér fjölda tjalda sem mest hefur verið á tjaldstæðinu í einu.

Í tilviki skála, farfuglaheimila og annarra staða sem bjóða gistingu í stökum rúmum og svefnpokaplássum skal færa heildarfjölda rúma og svefnpokaplássa sem eru til útleigu.

Tilgreina skal heildarfjölda annarra gistirýma en húsa, herbergja, tjaldstæða, rúma og svefnpokaplássa. Jafnframt skal tilgreina hvers eðlis þau eru.

Tímabil starfsemi

Við tilkynningu inn á stofnskrá skal gera grein fyrir hvenær gistináttaskattsskyld starfsemi hefst og tímabil starfseminnar innan ársins.

Upphaf starfsemi: Sem upphafsdag starfsemi skal skrá 1.1.2012 ef starfsemin hófst fyrir gildistöku laganna, nema starfsemin liggi þá niðri. Í því tilviki skal skrá þá dagsetningu þegar sala á gistingu hefst að nýju. Sé um nýja starfsemi að ræða, sem hefst eftir 1.1.2012, skal skrá þá dagsetningu þegar sala á gistingu hefst.

Starfsemi innan ársins: Ef starfsemin er árstíðabundin skal haka við þá mánuði sem starfsemin stendur yfir. Sé starfsemi allt árið skal haka við í alla reiti.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Almennt um gistináttaskatt - Lög nr. 87/2011 um gistináttaskatt

Fjárhæð gistináttaskatts – 2. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2011, um gistináttaskatt

Virðisaukaskattur á gistingu – 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum