Búnaðargjald
Fram til gjaldárs 2017 (tekjuárs 2016) var lagt búnaðargjald á alla þá sem stunda virðisaukaskattsskylda búvöruframleiðslu sem fellur undir atvinnugreinanúmer 01 (landbúnaður) og 02 (skógrækt) í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands (ÍSAT 2008), þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64 (þjónusta við jarðyrkju og búfjárrækt), 01.70 (dýraveiðar og tengd þjónusta) og 02.40 (þjónusta tengd skógrækt). Búnaðargjald er ekki lagt á frá og með gjaldári 2018 (tekjuári 2017).
Gjaldstofn
Gjaldstofn til búnaðargjalds er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá gjaldskyldum búvöruframleiðendum. Til gjaldskyldrar veltu telst annars vegar skattskyld velta til virðisaukaskatts og hins vegar undanþegin velta, þó að frádregnu andvirði seldra varanlegra rekstrarfjármuna. Við ákvörðun á gjaldstofni búnaðargjalds er einnig heimilt að draga frá veltu í virðisaukaskattsskyldri starfsemi kostnað vegna vinnslu og/eða sölu afurða. Gildir það jafnt um vinnslu og/eða sölu afurða sem fer fram heima á búinu og þá sem annar aðili fer með í umboði framleiðanda. Ríkisskattstjóri setur matsreglur um hámarksfjárhæð frádráttar vegna vinnslu og/eða sölu afurða. Þá er við ákvörðun á gjaldstofni búnaðargjalds heimilt að draga frá veltu í virðisaukaskattsskyldri starfsemi kaupverð lífdýra til áframeldis til framleiðslu búfjárafurða
Bókhaldsleg aðgreining
Reki búvöruframleiðandi aðra starfsemi en búnaðargjaldsskyld er ber honum að halda þeirri starfsemi aðgreindri í bókhaldi sínu.
Frádráttarbær rekstrarkostnaður
Búnaðargjald er rekstrarkostnaður og má færa til frádráttar á móti tekjum þess árs sem það reiknast af.
Álagning
Álagning búnaðargjalds fer fram með álagningu opinberra gjalda og kemur til innheimtu á gjalddögum þinggjalda. Gjaldskyldir búvöruframleiðendur skulu skila framtali til ríkisskattstjóra þar sem gjaldskyldar fjárhæðir eru tilgreindar eftir búgreinum innan framtalsfrests. Enn fremur skal búvöruframleiðandi sundurgreina gjaldstofn eftir starfsstöðvum ef aðsetur þeirra er annað en lögheimili framleiðanda og á starfssvæði annars búnaðarsambands.
Fyrirframgreiðsla
Búnaðargjald er innheimt fyrirfram og tekur fyrirframgreiðslan mið af álagningu fyrra árs og greiðist með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember á viðkomandi tekjuári. Dráttarvextir eru reiknaðir ef gjaldskyldur búvöruframleiðandi greiðir fyrirframgreiðslu ekki á tilskildum tíma. Ef álagning er hærri en ákvörðuð fyrirframgreiðsla skal greiða mismuninn með sem næst jöfnum greiðslum á gjalddögum þinggjalda.
Lækkun fyrirframgreiðslu
Gjaldskyldum búvöruframleiðendum er heimilt að sækja um breytingu ákvarðaðrar fyrirframgreiðslu til ríkisskattstjóra. Taka skal umsókn til greina sé fyrirsjáanlegt að búnaðargjald breytist um sem nemur a.m.k. 25% á milli ára, þó að lágmarki um 10.000 kr.
Ítarefni
Hvar finn ég reglunar?
Almennt um búnaðargjald - lög nr. 84/1997, um búnaðargjald
Álagning, kærur o.fl. - 10. kafli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Innheimta og ábyrgð - 13. kafli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Skattskyld velta - 4. kafli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Uppgjör skattskyldrar veltu - 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Viðurlög og málsmeðferð - 12. kafli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Ýmis ákvæði um skattyfirvöld - 11. kafli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Eyðublöð
Framtal vegna búnaðargjalds - RSK 1.09
Orðsendingar
Búnaðargjald vegna búvöruframleiðslu - RSK 16.03