Gistináttaskattur

Rafræn skil á gistináttaskatti eru gerð á skattur.is. Þegar skýrslu er skilað stofnast krafa sem hægt er að greiða í vefbanka gjaldanda. Á skattur.is er einnig hægt að gera leiðréttingar og fá yfirlit. Þeir sem eru í rafrænum skilum fá sendar áminningar um eindaga í tölvupósti, auk orðsendinga og annarra tilkynninga.

Nánari umfjöllun um skattinn er á síðunni gistináttaskattur. Þar er m.a. fjallað um atriði eins og skilgreiningu á hugtakinu „gistináttaeining“, hvernig fjöldi gistirýma er tilgreindur, um útgáfu reikninga og hvar lagareglur er að finna.

Stofnskrá gistináttaskatts - tilkynningarskylda

Allir þeir sem selja gistináttaeiningar skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en hún hefst. Skráningin er rafræn og gerð á þjónustusíðunni skattur.is. Formið er að finna í flipanum Samskipti, undir Allar umsóknir.

Skýrsla um seldar gistináttaeiningar

Skila skal skýrslu um seldar gistináttaeiningar í síðasta lagi á gjalddaga  og standa skil á greiðslu skattsins með greiðslu í vefbanka. Gistináttaskattur er 300 kr. á hverja selda gistináttaeiningu (var 100 kr. í ágúst 2017 og fyrr).

Ef ekki er greitt í vefbanka þarf að skila skattinum til innheimtumanns ríkissjóðs, sem eru ríkisskattstjóri og sýslumenn utan Reykjavíkur.

Gjalddagi

Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.

Uppgjörstímabil gistináttaskatts er það sama og uppgjörstímabil virðisaukaskatts hjá skattaðila. Skil á gistináttaskatti eru einnig mjög sambærileg skilum á virðisaukaskatti.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum