Fjársýsluskattur

Fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög bera fjársýsluskatt. Opinberar stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk og eru að fullu í eigu opinberra aðila eru undanþegnar skattskyldu, þó að frátöldum Íbúðalánasjóði. Frá og með álagningu árið 2021 er Íbúðalánasjóður undanþeginn gjaldskyldu til fjársýsluskatts.

Skattskyldir aðilar til fjársýsluskatts skulu ótilkvaddir og ekki síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst, tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá ríkisskattstjóra.

Skattstofn og skatthlutfall

Stofn til fjársýsluskatts eru allar tegundir launa og þóknana, nema eftirlauna- og lífeyrisgreiðslur og greiðslur vegna fæðingarorlofs. 

Skatturinn er 5,50% á tekjuárinu 2020.

ÁrHlutfall
20205,50%
20195,50%
20185,50%
20175,50%
20165,50%
20155,50%
20145,50%
20136,75%
20125,45%

Rafræn skil

Fjársýsluskatti er skilað á skattur.is, samhliða staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna. Reitir fyrir upplýsingar um skattstofn og fjárhæð fjársýsluskatts eru á rafrænni skilagrein vegna staðgreiðslu. Þegar skilagrein er send inn myndast krafa í vefbanka gjaldandans vegna skattsins.

Gjalddagar og eindagar

Fjársýsluskattur er innheimtur í staðgreiðslu og er greiðslutímabil skattsins hver almanaksmánuður. Gjalddagi er fyrsti dagur hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar, þ.e. sömu dagar og gilda um almenna staðgreiðslu af launum.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum