Skil á ársreikningum

Lög um ársreikninga skylda öll hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri til að leggja fram ársreikninga sína, og samstæðureikninga þegar það á við, hjá ársreikningaskrá til opinberrar birtingar. Sameignarfélög eru skilaskyld ef félögin eru í eigu framangreindra skilaskyldra félaga eða ef þau fara yfir stærðarmörk eigna, veltu og ársverka sem tiltekin eru í 2. tölul. 1. gr. laganna án tillits til eignaraðildar. Einnig eru samlagsfélög þar sem ábyrgðaraðili er félag með takmarkaðri ábyrgð skilaskylt til ársreikningaskrár sem og ef þau fara yfir stærðarmörk eigna, veltu og ársverka sem tiltekin eru í 2. tölul. 1. gr. laganna án tillits til eignaraðildar.

Skilafrestur á ársreikningi er eigi síðar en einum mánuði eftir samþykkt hans en þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Félög sem hafa heimild eða er skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, skulu þó senda ársreikninga þegar í stað eftir samþykkt þeirra en þó eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Skilaskylda á samstæðureikningi hvílir einnig hjá móðurfélagi samstæðu.

Veita skal almenningi aðgang að ársreikningunum. Heimilt er að selja ljósrit af ársreikningunum gegn gjaldi, sjá gjaldskrá.

Rafræn skil á ársreikningum

Þegar ársreikningi er skilað rafrænt þarf hann að vera á pdf, tiff eða jpg formi.

Ársreikningur skal innihalda, sbr. reglur nr. 1220/2007, um rafræn skil ársreikninga til ársreikningaskrár, rekstrar- og efnahagsreikning, sjóðstreymi, skýringar og athugasemdir og áritun endurskoðanda/skoðunarmanns ásamt undirritaðri skýrslu stjórnar ásamt skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa í stafrófsröð ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers þeirra og hundraðshluta hlutafjár í árslok. Á forsíðu skal koma fram skráð nafn félagsins, kennitala og póstfang (sveitarfélag) ásamt áritun um dagsetningu aðalfundar.

Ársreikningaskrá hefur verið starfrækt frá og með rekstrarárinu 1995.

Ítarefni

Hvar eru reglurnar?

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum