Dómar

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4614/2011

13.6.2012

Toyota á Íslandi ehf. gegn íslenska ríkinu.

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 13. júní 2012 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Toyota á Íslandi ehf. Stefnandi krafðist m.a. ógildingar á úrskurði ríkisskattstjóra dags. 17. nóvember 2010 í máli stefnanda.

Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort að vaxtagjöld sem til féllu vegna láns sem Bergey ehf. tók til að fjármagna kaup á hlutabréfum í P. Samúelssyni hf. teldust til rekstrarkostnaðar og væru þannig frádráttarbær frá skattskyldum tekjum síðarnefnda félagsins eftir að það hafði yfirtekið hið fyrrnefnda.

Í niðurstöðum dómsins er ekki fallist á vaxtagjöld lögaðila séu frádráttarbær óháð því hvernig til þeirra skulda var stofnað sem vaxtagjöldin stafa af. Ákvæði 2. mgr. 29. gr. tekjuskattslaga hefur að geyma skilyrði fyrir frádráttarbærni gjalda en í ákvæðinu kemur fram að lögaðilum sé heimilt að draga frá tekjum sínum þau gjöld sem ganga til að afla teknanna, tryggja þær eða halda þeim við.

Þá kemur ennfremur fram í dóminum að þegar Bergey ehf. hafði sameinast dótturfélagi sínu hafi grundvöllur frádráttarins brostið. Lánið hafi nýst til eignaaukningar Smáeyjar ehf., móðurfélags stefnanda, þótt félagið sem keypt hafði verið greiddi afborganir og vexti. Ennfremur taldi dómarinn ósannað að skapast hefði bindandi venja um úrlausn þess atriðis sem deilt var um í máli þessu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum