Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1999/2011
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 16. apríl 2012 var íslenska ríkið sýknað af kröfu stefnanda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framleiðslu og sölu á verksmiðjuframleiddum húseiningum.
Stefnandi byggði endurgreiðslukröfur sínar á því að túlkun skattyfirvalda og fjármálaráðuneytisins á ákvæðum 42. gr. virðisaukaskattslaga sem heimilar endurgreiðslu á 60% virðisaukaskatts sem greiddur er af vinnu manna á byggingarstað leiddi til þess að byggingaraðilum á sama markaði væri mismunað. Þá byggði stefnandi kröfur sínar á því að reglugerð sú sem um var deilt í málinu skorti lagastoð þar sem orðalag hennar gangi lengra en áður nefnd 42. gr.
Ennfremur byggði stefnandi á því að synjun skattyfirvalda á endurgreiðslu bryti gegn jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að þegar túlka eigi 42. gr. virðisaukaskattslaga verði að horfa til þess að ráðherra var falið með reglugerð að kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Ákvæði reglugerðarinnar um heimildir til endurgreiðslu eru skýr og að ekki verði séð að skattyfirvöld hafi túlkað þau þrengra en efni standa til. Þá féllst dómarinn ekki á að reglugerðin hefði ekki lagastoð. Hvað varðar stjórnarskrárbrotið þá segir svo í dóminum:
"Til þess að hús teljist fullnægja því skilyrði að vera íbúðarhús verður það að vera fokhelt, þ.e. þak fullfrágengið að utan og húsinu þannig lokað fyrir veðri og vindum, en óumdeilt er að framleiðsla stefnanda á verksmiðjuframleiddum húseiningum fullnægði ekki því skilyrði. Voru framleiðendur verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og verksmiðjuframleiddra húseininga því ekki í sambærilegri stöðu. Þótt löggjafinn hafi síðar, með vísan til breyttra byggingarhátta eins og um getur í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 10/2009, séð ástæðu til þess að víkka út gildissvið ákvæðis 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, með því að kveða sérstaklega á um heimild til þess að endurgreiða virðisaukaskatt vegna verksmiðjuframleiddra húseininga felur það að mati dómsins ekki í sér staðfestingu á því að löggjöfin hafi áður mismunað húsbyggjendum á ómálefnalegum forsendum eftir byggingaraðferðum."