Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-5168/2010
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 15. febrúar 2012 var íslenska ríkið sýknað af kröfu stefnanda um ógildingu á heimilisfestarúrskurði ríkisskattstjóra sem kveðinn var upp 26. nóvember 2009.
Stefnandi krafðist þess að framangreindur úrskurður ríkisskattstjóra um niðurfellingu á skattalegri heimilisfesti hennar frá 1. október 2004 yrði ógiltur.
Fram kemur í dóminum að skráð lögheimili ræður ekki eitt og sér því hvort viðkomandi teljist heimilisfastur hér á landi. Ennfremur kemur fram að flutningur af landi brott geti verið skýrt merki þess að viðkomandi hafi flutt búsetu til annars lands þrátt fyrir að lögheimili sé enn skráð hér á landi. Þá sagði í dóminum:
„... í málinu liggja fyrir upplýsingar um fjölda dvalardaga á Íslandi frá 1. október 2004, en þeir voru 12 frá þeim tíma til loka þess árs og langt undir 183 dögum á hverju 12 mánaða tímabili eftir það, árin 2005-2009.“
Að þessu virtu taldi dómarinn ekki efni til að fallast á kröfu stefnanda um ógildingu á heimilisfestarúrskurði ríkisskattstjóra.