Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7596/2010
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 23. janúar 2012 var úrskurður skattstjóra Norðurlandsumdæmis dags. 15. september 2008, um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda felldur úr gildi. Þá var einnig felldur úr gildi úrskurður yfirskattanefndar frá 10. febrúar 2010 í máli stefnanda.
Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort að heimilt væri að skattleggja sem laun óheimil lán sem hluthafi hafði fengið hjá einkahlutafélagi sínu og endurgreitt.
Fram kemur í dóminum að aðstöðumunur sé annars vegar á þeim sem fá lán sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög og endurgreiða þau og hins vegar á þeim sem endurgreiða slík lán ekki. Í fyrra tilvikinu er um að ræða fjármuni sem fara um hendur lántaka en í síðara tilvikinu skapast verðmæti í hendi þess sem fékk lánið. Þrátt fyrir þennan aðstöðumun gera ákvæði tekjuskattslaga engan greinarmun á skattlagningu umræddra lántakenda. Taldi dómurinn að umþrætt ákvæði tekjuskattslaga færu gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, 72. gr. og voru úrskurðir skattstjóra og yfirskattanefndar því felldir úr gildi.