Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-751/2011
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 28. október 2011 var ríkisskattstjóri sýknaður af kröfum Grundar, elli- og hjúkrunarheimili sem lutu m.a. að ógildingu á úrskurði skattstjórans í Reykjavík dags. 30. mars 2010 í máli stefnanda.
Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort að stefnandi ætti rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kostnaðar við endurbætur og breytingar á húsnæði sínu á árinu 2009 á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og bráðabirgðaákvæðis XV í sömu lögum, og hvort að húsnæði stefnanda við Hringbraut 50 í Reykjavík væri íbúðarhúsnæði í skilningi tilvitnaðra ákvæða.
Í dóminum kemur fram að við mat á því hvort húsnæði teljist íbúðarhúsnæði í skilningi laga og reglugerðarákvæða um endurgreiðslu virðisaukaskatts verði að líta til notkunar húsnæðisins. Horfa verði þannig til þess hvort að húsnæðinu sé ætlað að vera til fastrar búsetu íbúa sem og leyfilegrar notkunar húsnæðisins samkvæmt gildandi reglum um mannvirki sem og þeim skilmálum sem markar búsetu íbúa í því.
Í dóminum segir orðrétt:
„Í málinu liggur fyrir að í umræddu húsnæði er rekin stofnun fyrir aldraðra í skilningi 14. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, þ.e. dvalar- og hjúkrunarheimili. ... Þá liggur fyrir að til að fá vistun hjá stefnanda ... þurfi að liggja fyrir vistunarmat, sbr. 15. gr. laga nr. 125/1999. Þeir sem dvelja í húsnæði stefnanda á framangreindum forsendum eru vistmenn í skilningi 2. tölul. 2. mgr. sömu laga, en teljast ekki íbúar í hefðbundnum skilningi. Þá hefur það þýðingu í þessu sambandi að samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er húsnæði stefnanda ekki skráð sem íbúðarhúsnæði heldur sem vistheimili ...“Þá var vísað til þess að húsnæði stefnanda teldist ekki íbúðarhús í skilningi 5. kafla byggingareglugerðar nr. 441/1998.
Að framangreindu virtu taldi dómurinn að húsnæði stefnanda teldist ekki íbúðarhúsnæði í skilningi laga- og reglugerðarákvæða um endurgreiðslu virðisaukaskatts heldur húsnæði fyrir þjónustustarfsemi og hafnaði kröfum stefnanda.