Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 241/2010

13.10.2011

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 13. október 2011 voru felldir úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra dags. 29. október 2007 og úrskurður yfirskattanefndar dags. 27. maí 2009 og íslenska ríkið dæmt til að greiða Þórði Má Jóhannessyni kr. 15.399.602 ásamt vöxtum.

Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort hagnaður af sölu hlutabréfa í vinnuveitanda áfrýjanda, sem hann hafði keypt fyrir lánsfé, handveðsett og gert söluréttarsamning um, yrði skattlagður sem fjármagnstekjur eða sem laun.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að enginn vafi leiki á um að áfrýjanda hafi verið veitt hlunnindi með þeim samningum sem hann gerði við vinnuveitanda sinn um kaup á hlutabréfum og að þau hlunnindi skuli sæta skattlagningu skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga. Orðrétt segir í dóminum:

„Með gerð samkomulagsins við Straum Fjárfestingarbanka hf. 18. júní 2004 um niðurfellingu söluréttar og kvaðar um lágmarkseignarhaldstíma losnaði áfrýjandi undan viðjum kaupréttar vinnuveitanda síns og naut þannig til viðbótar almennum launatekjum ávinnings af störfum sínum í hans þágu sem svaraði til hækkunar á verði hlutabréfanna frá upphaflegu kaupverði þeirra, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003.“

Þá kemur fram í dóminum að sú forsenda ríkisskattstjóra, að söluréttur áfrýjanda hafi valdið því að hlutabréfakaup hans hafi ekki orðið endanleg fyrr en við gerð samkomulagsins 18. júní 2004 um niðurfellingu söluréttarsamningsins, fái ekki staðist, en áfrýjandi nýtti sér aldrei þann sölurétt sem honum var veittur.

Aðalkrafa áfrýjandi var þannig tekin til greina. Viðurkenningarkröfu hans um réttmæti framtalsskila var aftur á móti hafnað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum