Dómar

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4840/2010

1.2.2011

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 1. febrúar 2011 var úrskurður skattstjóra Reykjanesumdæmis dags. 28. apríl 2009 í máli stefnanda ógiltur.

Í málinu var deilt um það hvort að stefnandi gæti fært kostnað við kaup á aflamarki til gjalda í skattskilum sínum og dregið hann frá tekjum sínum á árinu 2006. Í úrskurði skattstjóra var því hafnað með vísan til þess að kaup stefnanda á aflamarki féllu undir ákvæði 1. mgr. 48. gr. tekjuskattslaga en það ákvæði kveður á um bann við fyrningu á stofnkostnaði við kaup á réttindum sem ekki rýrna vegna notkunar.

Fram kemur í dóminum að það bann sem felist í framangreindu ákvæði tekjuskattslaga nái aðeins til stofnkostnaðar við kaup á aflahlutdeild en ekki til þess kostnaðar sem hlýst af því að kaupa á sama tíma það aflamark sem úthlutað hefur verið á grundvelli aflahlutdeildarinnar en er óveitt á kaupdegi. Að þessu virtu skorti úrskurð skattstjóra lagastoð og var hann felldur úr gildi.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum