Dómar

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-8656/2009

22.3.2010

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 22. mars 2010 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Þórðar Más Jóhannessonar um ógildingu á úrskurði yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra í máli stefnanda.

Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort hagnaður af sölu hlutabréfa í vinnuveitanda stefnanda, sem stefnandi hafði keypt fyrir lánsfé, handveðsett og gert söluréttarsamning um, yrði skattlagður sem fjármagnstekjur eða sem laun.

Fram kemur í dóminum að það fyrirkomulag að vinnuveitandi stefnandi útvegaði honum lánsfé fyrir öllum hlutabréfakaupunum á hagstæðari kjörum en almennt gerðist og tryggði jafnframt að hann gæti selt bréfin á ekki lakari kjörum en sem næmi kaupverði að viðbættum fjármögnunarkostnaði, hafi dregið svo verulega úr áhættunni af því að eiga hlutabréfin að hún nánast þurrkaðist út. Þá taldi dómurinn ekki unnt að líta framhjá því varðandi hina meintu áhættu að aðeins rúmu ári eftir að upphaflegir samningar voru gerðir gat stefnandi slitið samningi og selt hlutabréfin á ríflega tvöföldu verði. Stefnandi gerði svo nýja söluréttarsamning við vinnuveitanda sinn en færði bæði eignarréttinn á hlutabréfunum og lántökuna yfir í einkahlutafélag í sinni eigu til að takmarka enn frekar áhættuna. Dómurinn vísaði til þess að ágreiningslaust væri að hlutabréfaeign stefnanda í vinnuveitanda hans væri tilkomin vegna starfssambandsins þeirra á milli og að í skattalegu tilliti hafi söluréttarsamningurinn og tengdir samningar stefnanda falið í sér nýtingu á kauprétti stefnanda í vinnuveitanda hans. Í samræmi við það bar að telja söluhagnað hlutabréfanna fram til skatts sem launatekjur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum