Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 142/2009

25.2.2010

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 25. febrúar 2010 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Impregilo SpA um endurgreiðslu á sköttum sem greiddir höfðu verið af launum erlendra manna sem störfuðu í þágu Impregilo SpA við Kárahnjúkavirkjun á vegum tveggja portúgalskra starfsmannaleiga. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það fé sem Impregilo SpA hefði skilað vegna staðgreiðslu af launum erlendu starfsmannanna væri ekki ofgreitt þar sem íslenska ríkið hefði átt réttmæta kröfu til fjárins. Réttur til endurgreiðslu væri á hendi gjaldandans sjálfs en ekki Impregilo SpA sem hefði haft milligöngu við að uppfylla skattskyldu sem hvíldi á öðrum en ekki verið í hlutverki gjaldanda. Þá taldi Hæstiréttur að Impregilo SpA hefði vanrækt að takmarka tjón sitt og hefði því fyrirgert rétti sínum til bóta úr hendi íslenska ríkisins.


Impregilo SpA krafðist jafnframt endurgreiðslu á tryggingagjaldi sem félaginu var gert að greiða vegna launa þessara starfsmanna. Féllst Hæstiréttur á að tryggingagjaldið hefði verið ofgreitt skv. lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, en lagði þó ekki efnisdóm á þann hluta málsins vegna vanreifunar af hálfu Impregilo SpA. Þessum hluta málsins var því vísað frá dómi.
Til baka Prenta

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum