Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 115/2014

17.10.2014

Mikael Jónsson gegn íslenska ríkinu

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 16. október 2014 var sýknudómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. nóvember 2013 staðfestur.

Í málinu var deilt um staðgreiðsluhlutfall vaxtatekna. Áfrýjandi fékk greiddar bætur frá Landsvirkjun í kjölfar dóms Héraðsdóms Austurland í janúar 2011. Á bæturnar voru reiknaðir vextir allt frá árinu 2007 og fram til greiðsludags. Af þessum vöxtum var haldið eftir 20% skatti í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Hæstiréttur vísaði til samnings sem gerður var um framsal og yfirtöku vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar og um málsmeðferð til að ákvarða endurgjald fyrir þau.  Í þeim samningi var kveðið á um að bætur skyldu bera almenna vexti samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu frá þeim degi sem matsnefnd kæmist að niðurstöðu en dráttarvexti að liðnum 60 dögum og til greiðsludags.  Þá kom ennfremur fram að umrætt samningsákvæði um vexti myndi ekki gilda í þeim málum sem skotið væri til dómstóla.

Með vísan til þessa féllst Hæstiréttur á þá niðurstöðu héraðsdóms að vaxtatekjurnar væru óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga og hefðu ekki orðið greiðslukræfar fyrr en með dómi Héraðsdóms Austurlands.  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var því staðfestur með vísan til forsendna.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum