Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 762/2013
Guðrún Helga Lárusdóttir gegn íslenska ríkinu
Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 10. apríl 2014 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Guðrúnar Helgu Lárusdóttur. sem lutu m.a. að niðurfellingu á álagningu auðlegðarskatts gjaldárin 2010, 2011 og 2012.
Í málinu var deilt um hvort þau lagaákvæði sem mæla fyrir um auðlegðarskatt færu í bága við ákvæði 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu.
Áfrýjandi hélt því fram að í hugtakið „skattalega bókfært eigið fé“ væri hvergi skilgreint í skattalögum og af þeim sökum fæli sú viðmiðun ekki í sér fullgilda skattlagningarheimild.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram það sé á valdi löggjafans að mæla fyrir um hvaða skattar skuli á lagðir. Þá þurfi skattalög að hafa að geyma ákvæði um hverjir séu skattskyldir, við hvað skatturinn skuli miðast og hver sé fjárhæð hans. Hæstiréttur vísaði til þess að þegar litið væri til 1. mgr. 90. gr. tekjuskattslaga þar sem kveðið væri á um að ársreikningur í samræmi við ákvæði bókhaldslaga og eftir atvikum ársreikningalaga, ætti að fylgja skattframtali, færi ekki á milli mála að með fyrrnefndu hugtaki „skattalega bókfært eigið fé“ væri átt við eigið fé félags eða annars lögaðila samkvæmt framtali þess.
Jafnframt kemur fram í dómi Hæstaréttar að leggja beri á skatta eftir almennum efnislegum mælikvarða þar sem jafnræðis sé gætt. Að virtum þessum grundvallarsjónarmiðum hefur löggjafanum verið játað verulegt svigrúm til að ákveða hvernig skattlagningu skuli háttað. Orðrétt segir svo í dóminum:
„Nái skatturinn til fámenns hóps skattborgara kann það að veita vísbendingu um að of nærri þeim hafi verið gengið, en fjöldinn einn sker þó ekki úr, heldur hvort skattlagningu sé gagngert beint að einstökum mönnum án þess að það sé gert á málefnalegan hátt. Á sama hátt og tekjuskattar skerða tekjur manna, til dæmis laun þeirra fyrir vinnu, er það eðli eignarskatta að eignir þeirra sem þá skatta greiða rýrna ef greiðendurnir njóta ekki tekna til að standa undir sköttunum. Það eitt stendur þó ekki í vegi fyrir því í lagalegu tilliti að gripið sé til slíkrar skattlagningar.“
Þá taldi Hæstiréttur að horfa yrði til við hvaða aðstæður lögin voru sett, hvert markmið þeirra hafi verið, eðli skattsins og fjárhæð hans. Að virtum skattleysismörkum auðlegðarskattsins, útreikningi skattstofnsins, afmörkuðum gildistíma skattsins og skatthlutfallsins taldi Hæstiréttur að „skattastefna lagaákvæðanna um auðlegðarskatt“ gangi ekki gegn 1. mgr. 72. gr., sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Að síðustu hélt áfrýjandi því fram að ekki hafi verið tekið mið af sannvirði hlutabréfa í máli hennar. Vegna þess að kveðið sé á um að miða eigi við hlutdeild hluthafa í skattalega bókfærðu eigin fé þá leiði það til þess að matsverð hlutabréfa til skatts verði alltaf ofmetið miðað við reikningsskilareglur og raunverðmæti bréfsins í hendi hluthafans.
Hæstiréttur hafnaði þessari málsástæðu áfrýjanda og vísaði til þess að bókfært verð eigna í tveimur af einkahlutafélögum í eigu áfrýjanda hafi verið mun lægra en fasteignamat og vátryggingamat. Fasteignamat og vátryggingamat séu líklegri til að endurspegla raunvirði en hið bókfærða verð. Áfrýjandi var þannig ekki talin hafa sýnt fram á að verðmæti hlutabréfa hennar hefðu verið ofmetin við álagningu auðlegðarskatts.
Hæstiréttur staðfesti þannig dóm héraðsdóms og dæmdi áfrýjanda til að greiða íslenska ríkinu málskostnað.