Dómar

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-625/2012

7.3.2014

Hafnarfjarðarkaupstaður gegn íslenska ríkinu

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 7. mars 2014 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Hafnarfjarðarkaupstaðar. sem lutu aðallega að því að úrskurður ríkisskattstjóra dags. 22. mars 2011 yrði felldur úr gildi og að fjármagnstekjuskattsstofn stefnanda gjaldárið 2012 yrði lækkaður um kr. 5.467.077.430.  Til vara krafðist stefnandi að nefndum úrskurði ríkisskattstjóra yrði breytt þannig að fjármagnstekjuskattsstofn hans gjaldárið 2012 yrði lækkaður um kr. 5.467.077.430 og sama fjárhæð að viðbættum kr. 204.297.372, yrði færð til tekna sem söluhagnaður hjá stefnanda gjaldárið 2009 sem tekjur ársins 2008.

Í málinu var deilt um hvort heimilt væri að skattleggja söluhagnað stefnanda vegna sölu hans á hlut í HS Orku hf. en stefnandi er sveitarfélag sem er undanþegið greiðslu tekjuskatts samkvæmt tekjuskattslögum.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að þrátt fyrir að ekki verði lagður almennur tekjuskattur á sveitarfélög sbr. 2. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga þá sé skýrt kveðið á um skattskyldu þeirra af tilteknum fjármagnstekjum þar á meðal söluhagnaði hlutabréfa í 4. mgr. 71. gr. laganna.

Þá kemur fram í dóminum að ákvæði 4. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga brjóti ekki gegn stjórnarskránni og skipti þá ekki máli þó ólíkar reglur gildi um skattlagningu hagnaðar við sölu hlutabréfa hjá öðrum skattaðilum s.s. hlutafélögum og samvinnufélögum. 

Hvað varakröfu stefnanda varðar þá kemur fram í dóminum að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum.  Frá þessari meginreglu verður aðeins vikið þegar tekjur teljast óvissar og í þeim tilvikum ber að miða tekjufærslu við þann tíma þegar endir er bundinn á óvissuna. Þegar ágreiningi um kröfu er skotið til dómstóla verður að ganga út frá því að krafa teljist óviss þar til endanlegur dómur gengur um skuldbindingargildi hennar. Fyrst við það tímamark geta tekjur kröfuhafa talist svo öruggar að þær verði andlag tekjuskatts.

Dómurinn taldi ljóst af fyrirliggjandi gögnum m.a. athugasemda í ársreikningi, að stefnandi sjálfur hefði talið tekjur sínar af umræddri sölu óvissar.  Rétt hefði því verið að telja tekjurnar fram í skattframtali 2012 vegna tekjuársins 2011.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum