Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 607/2013
Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 13. febrúar 2014 staðfesti Hæstiréttur sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júní 2013.
Haukur Guðjónsson (áfrýjandi) krafðist þess aðallega fyrir Hæstarétti að úrskurður ríkisskattstjóra frá 18. júní 2012 yrði felldur úr gildi. Varakrafa áfrýjanda laut að því felld yrði úr gildi sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa áfrýjanda til tekna sem laun kr. 150.000.000 á tekjuárinu 2008 og lækka á móti framtaldar arðstekjur um sömu fjárhæð.
Ágreiningur málsaðila snerist um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að tekjufæra sem launatekjur greiðslur annars vegar að fjárhæð kr. 8.434.750 á tekjuárinu 2006 og hins vegar kr. 150.000.000 á tekjuárinu 2008. Í báðum tilvikum var um að ræða greiðslur frá einkahlutafélagi í eigu áfrýjanda. Tekjufærsla ríkisskattstjóra var á því byggð að um væri að ræða óheimil úthlutun af fjármunum einkahlutafélags á árunum 2006 og 2008 sem skattleggja bæri sem laun.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þegar greiðslur frá einkahlutafélagi áfrýjanda voru inntar af hendi til hans var hvorki um að ræða hagnað síðasta árs samkvæmt samþykktum ársreikningi félagsins né hafi verið til staðar yfirfærður hagnaður fyrri ára. Arði hafi þannig ekki verið úthlutað til áfrýjanda á þeim grundvelli. Þá hafi engir frjálsir sjóðir verið skilgreindir í ársreikningi félagsins og að gangvirðisreikningur sem áfrýjandi hafi vísað til geti ekki talist frjáls sjóður í þessu sambandi enda varð engin raunverulegur sjóður til í félaginu við endurmat á virði hlutabréfa þess. Ennfremur verði ekki séð að tekin hafi verið með formlegum hætti ákvörðun um að úthluta arði úr félaginu eins og lög um einkahlutafélög kveða á um. Hæstiréttur vísaði og til þess að hvorki lög um einkahlutafélög né lög um ársreikninga gera ráð fyrir að heimilt sé að greiða fyrirfram arð. Í síðasta lagi tiltók Hæstiréttur að ákvæði í lánasamningi milli einkahlutafélagsins og Glitnis banka gætu aldrei verið lögmætur grundvöllur úthlutunar arðs.
Hæstiréttur staðfesti, með vísan til þessa og forsendna hins áfrýjaða dóms, niðurstöðu héraðsdóms.