Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2835/2012
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 12. febrúar 2013 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Einars Sveinssonar og Birnu Hrólfsdóttur. sem lutu aðallega að ógildingu á úrskurði yfirskattanefndar nr. 246/2011 og til vara að áður nefndur úrskurður yrði felldur niður að hluta og breytt þannig að álag á tekjuviðbót yrði fellt niður.
Í málinu var deilt um hvort stefnendum hafi verið heimilt að færa meint sölutap að fjárhæð kr. 964.302.056 sem myndaðist við sölu á bréfum í Melrose Plc á móti söluhagnaði að fjárhæð kr. 2.446.554.236 sem myndaðist við sölu á hlutabréfum í Glitni banka.
Ákvæði 1. mgr. 24. gr. tekjuskattslaga kveður á um fjögur skilyrði fyrir framangreindum frádrætti; a) um sölu hafi verið að ræða, b) um sams konar eignir hafi verið að ræða, c) um tap hafi verið að ræða og d) ráðstafanir hafi átt sér stað á sama ári.
Stefnendur byggðu á því að öll skilyrði hafi verið uppfyllt fyrir því að framangreindur frádráttur væri heimill en stefndi hélt því fram að eingöngu eitt skilyrði væri uppfyllt.
Í dómi Héraðsdóms kemur fram að hin selda eign, þ.e. bréfin í Melrose Plc, séu ekki sams konar eign og hlutabréf þau sem seld voru í Glitni banka. Bréfum í Melrose Plc hafi ekki fylgt hefðbundin réttindi hlutabréfa s.s. atkvæðisréttur á hluthafafundum, réttur til arðs. Bréfin voru ekki skráð á markaði og voru ekki framseljanleg. Þá féllst dómurinn á þá niðurstöður yfirskattanefndar að bréfin í Melrose Plc hafi verið því sem næst verðlaus í hendi stefnenda og verðlagning þeirra hafi eingöngu verið að nafninu til. Skilyrði 1. mgr. 24. gr. tekjuskattslaga voru þannig ekki uppfyllt og var stefnendum óheimilt að færa sölutap vegna bréfanna á móti hagnaði af sölu hlutabréfa í Glitni banka.
Íslenska ríkið var sýknað af kröfum stefnenda.