Dómur Hæstaréttar í máli nr. 529/2013
Samherji hf. gegn íslenska ríkinu.
Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp þann 23. janúar 2014 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Samherja hf. Áfrýjandi (Samherji hf.) krafðist m.a. ógildingar á úrskurði ríkisskattstjóra dags. 16. desember 2011 þar sem opinber gjöld félagsins vegna 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010 voru endurákvörðuð. Jafnframt krafðist áfrýjandi endurgreiðslu á kr. 967.498.286 krónur með dráttarvöxtum.
Ágreiningurinn í málinu snerist annars vegar um það hvort áfrýjanda hefði verið heimilt að nýta uppsafnað rekstrartap frá Fjárfestingafélaginu Fylki ehf. sem áfrýjandi hafði sameinast og hins vegar hvort að áfrýjanda hefði verið heimilt að draga frá rekstrartekjum sínum vaxtagjöld og gengismun af fjárskuldbindingu sem áfrýjandi yfirtók við samruna félaganna.
Til stuðnings kröfum sínum vísaði áfrýjandi til þess að ríkisskattstjóri og starfsmenn hans hafi verið vanhæfir til að kveða upp úr úrskurð í málinu þar sem yfirmaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra hafi fjallað um svokallaðan öfuga samruna í fréttablaði ríkisskattstjóra, Tíund.
Hæstiréttur vísaði til forsendna héraðsdóms hvað varðar þessa málsástæðu áfrýjanda. Í forsendum héraðsdómsins er vísaði til dóms Hæstaréttar 31. mars 2011 í máli nr. 626/2010 þar sem fram kemur að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi nokkurt svigrúm til almennrar umfjöllunar um álitaefni á sviði skattaréttar án þess að slíkt leiði til vanhæfni þeirra til að taka ákvarðanir í einstökum málum. Þá hafi umfjöllun sú sem áfrýjandi vísar til ekki verið með þeim hætti að ástæða hafi verið til að draga óhlutdrægni þeirra í efa með réttu.
Þá vísaði áfrýjandi til þess að tveggja ára endurákvörðunarfrestur skattyfirvalda hafi verið liðinn þegar ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð sinn og af þeim sökum hafi ríkisskattstjóra verið óheimilt að endurákvarða opinber gjöld vegna gjaldársins 2006.
Hæstiréttur vísaði einnig til forsendna héraðsdóms hvað þessa málsástæðu varðar. Héraðsdómur hafnaði þessari málsástæðu með vísan til þess að nauðsynlegt hafi verið að leita skýringa áfrýjanda á því sem máli skipti við mat á því hvort skilyrði fyrir nýtingu rekstrartaps væru uppfyllt. Skattyfirvöld hafi þannig ekki án nánari athugunar tekið ákvörðun um hvort færa mætti rekstrartapið til frádráttar á skattframtali áfrýjanda umrætt ár á grundvelli skattframtalsins og fylgigagna þess. Ákvæði 1. mgr. 97. gr. tekjuskattslaga sem kveður á um sex ára endurákvörðunarheimild átti því við um þetta atriði.
Áfrýjandi vísað og til þess að öll lagaskilyrði hafi verið uppfyllt við samruna hans við Fjárfestingafélagið Fylki ehf. og að við sameininguna hafi áfrýjandi tekið við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum. Þar af leiðandi hafi honum verið heimilt að nýta eftirstöðvar rekstrartaps sem myndaðist hafði hjá fjárfestingafélaginu.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að kaup Fjárfestingafélagsins Fylkis ehf. á hlutum í áfrýjanda áður en félögin runnu saman hafi eingöngu verið gerð í því skyni að færa eignarhald að áfrýjanda í hendur þeirra, sem fyrir áttu stærsta hlut í honum. Í þessu skyni stofnaði fjárfestingafélagið til verulegra skulda. Við samruna félaganna færðust þessar skuldir á herðar áfrýjanda, en nær engar eignir og lækkaði eigið fé hans verulega við þetta. Þá segir svo í dóminum:
„Þessi samruni hafði að þessu gættu engan venjulegan eða eðlilegan rekstrartilgang. Þegar af þessari ástæðu var ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 54. gr. laga nr. 90/2003 til að flytja skattalegt tap Fjárfestingafélagsins Fylkis ehf. til áfrýjanda.“
Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans, um að áfrýjanda hafi ekki verið heimilt að færa til frádráttar í skattskilum sínum kostnað vegna skulda, sem fluttust til hans með samruna við Fjárfestingafélagið Fylki ehf. Þá var álagsbeiting ríkisskattstjóra staðfest.