Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 368/2013

8.11.2013

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 7. nóvember 2013 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Stoða hf.  Áfrýjandi (Stoðir hf.) krafðist þess að viðurkennt væri að skattkrafa stefnda (íslenska ríkisins) á hendur sér samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra frá árinu 2011, eins og henni var breytt með úrskurði yfirskattanefndar frá árinu 2012, falli undir nauðasamning áfrýjanda sem staðfestur var í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní 2009.  Jafnframt krafðist áfrýjandi endurgreiðslu á kr. 455.010.924.

Ágreiningurinn í málinu laut að því hvort skattkröfur „falla til“ við lok þess uppgjörstímabils sem þær varða (í lok uppgjörstímabils í tilviki virðisaukaskatts eða rekstrarárs í tilviki opinberra gjalda) eða hvort þær „falli til“ við úrskurð um endurákvörðun.

Til stuðnings kröfum sínum vísaði áfrýjandi til þess að kröfur skattyfirvalda vegna opinberra gjalda gjaldáranna 2007 og 2008, sem voru endurákvörðuð með úrskurði ríkisskattstjóra í júní 2011, hafi verið skilyrtar kröfur í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl.  Kröfurnar hafi stofnast í lok rekstraráranna 2006 og 2007 og hafi því fallið undir nauðasamning stefnanda sem samþykktur var í júní 2009.  Þá hefði skuldajöfnun tollstjóra frá 27. júní 2011 verið ólögmæt þar sem ríkisskattstjóri hefði seinkað afgreiðslu kærunnar til að tollstjóri gæti skuldajafnað inneign á móti gjaldahækkun sem leiddi af rannsókn á skattskilum áfrýjanda.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að nokkuð misræmi hafi verið á því í dómaframkvæmd hvenær skattkrafa teljist hafa stofnast.  Í sumum tilvikum þurfi atbeina stjórnvalds til að ákveða fjárhæð skatta en í öðrum tilvikum er gjaldanda ætlað að skila skýrslu sem byggja má skattfjárhæð á og standa síðan skil á greiðslu í samræmi við það.  Þá kemur fram að ákvörðun ríkisskattstjóra um hækkun skatta eftir álagningu þeirra falli undir fyrrnefnda flokkinn.  Ákvörðun viðbótarskatta áfrýjandi fór fram í júní 2011 og af þeim sökum fellur sú skattkrafa ekki undir nauðasamning áfrýjanda.  Ennfremur vísaði Hæstiréttur til þess að áfrýjandi hefði ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum sem byggja mátti álagninguna á fyrr en 6. apríl 2009.  Viðurkenningakröfu áfrýjanda var því hafnað

Hvað varðar endurgreiðslukröfu áfrýjanda þá tekur Hæstiréttur fram að viðurkenningarkröfu áfrýjanda hafi verið hafnað og að skattkrafan hafi þar með ekki fallið undir nauðasamning áfrýjanda og standi því óhögguð.  Stefndi hafi átt gagnkröfu á móti greiðslukröfu áfrýjanda og verður ekki séð að þeirri niðurstöður fenginni hvaða hagsmuni hann geti haft af því að dómur gangi um síðari þátt dómkrafna hans.  Þá kemur fram í dómi Hæstaréttar að ef fallist væri á þá málsástæðu áfrýjanda að ríkisskattstjóri hefði dregið með ólögmætum hætti að leggja skattframtal hans til grundvallar álagningu þá myndi „það fráleitt leiða til þess að tekin yrði til greina greiðslukrafa hans, sem er höfð uppi á grundvelli þess sama úrskurðar.“

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum