Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-663/2013
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 4. nóvember 2013 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Mikaels Jónssonar. sem lutu m.a. að ógildingu á úrskurði yfirskattanefndar nr. 448/2011 og endurgreiðslu á kr. 29.521.
Í málinu var deilt um staðgreiðsluhlutfall vaxtatekna. Stefnandi fékk greiddar bætur frá Landsvirkjun í kjölfar dóms Héraðsdóms Austurland í janúar 2011. Á bæturnar voru reiknaðir vextir allt frá árinu 2007 og fram til greiðsludags. Af þessum vöxtum var haldið eftir 20% skatti í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
Stefnandi var ósáttur við skatthlutfallið og taldi að miða ætti við það skatthlutfall sem í gildi var á þeim tímabilum sem vextirnir reiknuðust. Ríkisskattstjóri hafnaði þessari kröfu stefnanda og var sú ákvörðun kærð til yfirskattanefndar sem einnig hafnaði kröfum hans með úrskurði nr. 448/2011.
Í dóminum kemur fram að stefnandi hafi átt í deilum við Landsvirkjun um endurgjald fyrir vatnsréttindi að Jökulsá á Dal fyrir landi Geirastaða II. Krafa stefnanda á hendur Landsvirkjun var þannig óviss krafa í skilningi skattaréttar. Úr óvissunni var ekki leyst fyrr en með dómi Héraðsdóms Austurlands í janúar 2011 sem síðar var staðfestur með dómi Hæstaréttar í október 2012. Í samræmi við þetta bar að skattleggja tekjurnar þegar úr óvissunni var leyst sbr. 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga en ekki þegar krafan stofnaðist.
Jafnframt kemur fram í dóminum að þau atvik sem ráða skattskyldu hafi orðið til með dómi Héraðsdóms Austurlands í janúar 2011 – þannig hafi ekki verið um afturvirka skattlagningu að ræða enda var staðgreiðsluhlutfall vaxtanna miðað við það hlutfall sem í gildi var í janúar 2011.
Íslenska ríkið var samkvæmt framansögðu sýknað af kröfum stefnanda.