Dómar

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-179/2013

28.10.2013

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 24. október 2013 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Guðrúnar Helgu Lárusdóttur. sem lutu m.a. að niðurfellingu á álagningu auðlegðarskatts gjaldárin 2010, 2011 og 2012.

Í málinu var deilt um álagningu auðlegðarskatts framangreind gjaldár. Var álagður auðlegðarskattur á stefnanda 2.295.132 krónur fyrsta árið, 3.151.780 krónur annað árið og 4.355.542 krónur þriðja árið eða samtals 9.802.454 krónur. Viðbótarauðlegðarskattur var lagður á stefnanda gjaldárin 2011 og 2012, og nam álagður skattur 11.086.033 krónum fyrra árið og 15.022.956 krónum hið síðara, eða samtals 26.108.989 krónur.

Í dóminum kemur fram þau ákvæði tekjuskattslaga um auðlegðarskatt sem kveða á um að miða skuli skattstofninn við skattalega bókfært eigið fé félagsins megi jafna til eignaupptöku.  Um sé að ræða almenna nálgun um verðmæti viðkomandi eignar og þá hafi stefnandi ekki sýnt nægjanlega fram á að álagning skattsins hafi falið í sér stórfelld frávik frá þeim markmiðum laganna að meta eign til raunvirðis.  Þá féllst dómurinn ekki á að jafna megi þeirri ákvörðun löggjafans að leggja skattalegt bókfært eigið fé hlutafélaga til grundvallar mati á skattskyldum eignum hluthafa við að lögmæt eign eins sé gerð að skattandlagi við ákvörðun skatts annars aðila þannig að í bága fari við ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Jafnframt kemur fram í dóminum að löggjafinn hafi gert ráð fyrir mismunandi útreikningi verðmætis hlutabréfa eftir því hvort um er að ræða innlend eða erlend hlutabréf.  Þannig sé ekki um að ræða mismunun sem fari í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá kemur eftirfarandi fram í dóminum:

„Það er almenn og viðurkennd regla í skattarétti að löggjafanum er heimilað að taka tillit til fjárhags- og eignastöðu skattaðila í þeim tilgangi að jafna skattbyrði á milli manna ef byggt er á málefnalegum grundvelli og hlutlægum viðmiðunum. Telur dómurinn að þeim skilyrðum hafi verið fullnægt við setningu laga um auðlegðarskatt.“

Dómurinn taldi hið sama gilda um hjúskaparstöðu manna sem byggð væri á svipuðum sjónarmiðum.  Það samrýmdist þannig stjórnarskránni að og almennri jafnræðisreglu að taka tillit til samlegðaráhrifa í tilviki hjóna sem ekki gæti í tilviki einstaklinga. 

Ennfremur kemur fram í dóminum að það sé meginregla skattaréttar að skatta beri að leggja á eftir almennum efnislegum mælikvarða og vissri jafnræðisreglu, þannig að skattaðilum sé ekki mismunað óeðlilega.  Að lokum segir svo í dóminum:

„Er almenni löggjafinn talinn hafa víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattlagningu að því marki að gætt sé greindra hlutlægnis- og jafnræðissjónarmiða. Í þessu sambandi er einnig litið til skatthlutfalls og þess gildistíma sem lögunum er ætlaður. Telur dómurinn, eins og atvikum er háttað, að sá hópur skattaðila sem þurfi að sæta auðlegðarskatti, sé ekki svo fámennur að fari í bága við greind ákvæði stjórnarskrárinnar.“

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum