Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3327/2012

29.8.2013

Kristinn Þór Geirsson gegn íslenska ríkinu.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 24. júní 2013 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Kristins Þórs Geirssonar.  Stefnandi (Kristinn Þór Geirsson) krafðist þess að úrskurður ríkisskattstjóra dags. 18. júní 2012 yrði felldur úr gildi.

Ágreiningurinn málsaðila snerist um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að tekjufæra sem launatekjur greiðslur annars vegar að fjárhæð kr. 8.434.751 á tekjuárinu 2006 og hins vegar kr. 150.000.000 á tekjuárinu 2008.  Í báðum tilvikum var um að ræða greiðslur frá einkahlutafélagi í eigu stefnanda.  Tekjufærsla ríkisskattstjóra var á því byggð að um væri að ræða óheimil úthlutun af fjármunum einkahlutafélags á árunum 2006 og 2008 sem skattleggja bæri sem laun.

Stefnandi hélt því m.a. fram að frestur skattyfirvalda til endurákvörðunar opinberra gjalda hafi verið liðinn þegar endurákvörðun fór fram.

Í dómi sínum vísar Héraðsdómur Reykjavíkur til þess að ríkisskattstjóra hefði verið ómögulegt að endurákvarða opinber gjöld stefnanda án þess að kalla eftir frekari gögnum og skýringum frá stefnanda.  Af þeim sökum hafi frestur skattyfirvalda til endurákvörðunar verið sex ár en ekki tvö ár.

Stefnandi vísaði ennfremur til þess að lagaskilyrði hafi verið fyrir úthlutun arðs á þeim árum sem um ræðir enda hafi eigið fé einkahlutafélagsins verið jákvætt.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að samkvæmt ársreikningum félagsins fyrir rekstrarárin 2005, 2006 og 2007 hafi félagið verið rekið með tapi.  Þannig hafi greiðsla til stefnanda ekki verið úthlutun af hagnaði ársins eða yfirfærðs hagnaðar frá fyrri árum.  Þessu til viðbótar var óráðstafað eigið fé félagsins neikvætt á framangreindum rekstrarárum.  Ákvæði 74. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, kveður aftur á móti ótvírætt á um að frjálsir sjóðir samkvæmt ákvæðinu myndist af rekstrarhagnaði fyrri ára eða af niðurfærslu hlutafjár.  Þau skilyrði hafi ekki verið fyrir hendi í tilviki stefnanda.

Ennfremur segir svo í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur:

„Það er mat dómsins að endurmatið sem framkvæmt var í ársreikningum KÞG Holding ehf. árin 2006 og 2007 geti ekki skapað skilyrði til úthlutunar arðs á grundvelli frjálsra sjóða í skilningi 74. gr. laga um einkahlutafélög, meðal annars þar sem ekkert opinbert mat lá fyrir um virði eigna félagsins. Samkvæmt framangreindu voru engin skilyrði til arðsúthlutunar hjá KÞG Holding ehf. á grundvelli ársreikninga áranna 2005 og 2007. Niðurstaða í úrskurði ríkisskattstjóra er byggð á því og verður með vísan til þess sem að framan er rakið að telja að hún sé rökstudd með viðeigandi hætti og í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.“

Að framangreindu virtu komst dómurinn að því með vísan til 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga að fallast bæri á úrskurð ríkisskattstjóra enda hefði stefnandi verið sá aðili sem tók allar ákvarðanir um rekstur félagsins og naut ávinnings af honum.  Þá sé einnig óumdeilt að stefnandi tók við fjármununum og ráðstafaði þeim til eigin nota.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum