Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 555/2012
Toyota á Íslandi ehf. gegn íslenska ríkinu.
Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp þann 28. febrúar 2013 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Toyota á Íslandi ehf. Áfrýjandi (Toyota á Íslandi ehf., áður P. Samúelsson hf.) krafðist m.a. ógildingar á úrskurði ríkisskattstjóra dags. 17. nóvember 2010 í máli áfrýjanda.
Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort að vaxtagjöld sem til féllu vegna láns sem Bergey ehf. tók til að fjármagna kaup á hlutabréfum í P. Samúelssyni hf. teldust til rekstrarkostnaðar og væru þannig frádráttarbær frá skattskyldum tekjum síðarnefnda félagsins eftir að það hafði yfirtekið hið fyrrnefnda í gegnum samruna.
Til stuðnings kröfum sínum vísaði áfrýjandi til þess að ríkisskattstjóri og starfsmenn hans hafi verið vanhæfir til að kveða upp úr úrskurð í málinu þar sem yfirmaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra hafi fjallað um svokallaðan öfuga samruna í fréttablaði ríkisskattstjóra Tíund.
Í dómi sínum vísar Hæstiréttur til forsendna héraðsdóms um þessa málsástæðu þar sem fram kemur að ekkert í þeim greinum sem birst hafi í Tíund leiði til þess að greinarhöfundur og undirmenn hans verði taldir vanhæfir.
Þá vísaði áfrýjandi til þess að tveggja ára endurákvörðunarfrestur skattyfirvalda hafi verið liðinn þegar ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð sinn.
Hæstiréttur hafnaði þessari málsástæðu áfrýjanda þar sem ekki var unnt að endurákvarða opinber gjöld hans á grundvelli þeirra gagna sem lágu fyrir í skattskilum án þess að ríkisskattstjóri sendi fyrirspurn og aflaði frekari gagna.
Í niðurstöðum Hæstaréttar kemur fram að Lán Bergeyjar ehf. sem um ræðir hafi verið tekin í þágu eigenda þess félags til að greiða þáverandi eigendum P. Samúelssonar hf. kaupverð alls hlutafjár í félaginu. Lánin hafi þannig ekki verið tekin í þágu áfrýjanda og því rekstri hans óviðkomandi. Þá segir svo í dómnum:
Eftir samruna höfðu skuldir Bergeyjar ehf. engan rekstrarlegan tilgang í hinu nýja félagi og miðuðu ekki að því að afla félaginu tekna, sbr. að framan. Samruninn miðaði ekki heldur að því að ná fram samlegðaráhrifum og þar með þeim tilgangi sem lá að baki 51. gr., sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 456/1997 sem birtur var í dómasafni réttarins 1998 á bls. 268. Sá öfugi samruni, sem fólst í sameiningu Bergeyjar ehf. og P. Samúelssonar hf., miðaði gagngert að því að koma skuldum yfir á yfirtökufélagið, sem ekki hefur verið vefengt að hafi verið heimilt. Skilyrði brast hins vegar samkvæmt framansögðu til að kostnaður, sem þeim skuldum fylgir, teljist frádráttarbær rekstrarkostnaður hjá áfrýjanda, enda eru þær óviðkomandi rekstri félagsins.
Loks er fjallað um það sjónarmið áfrýjanda að ráðstafanir eins þær sem um ræðir hafi stuðst við skýra og langvarandi framkvæmd og breyting þar á með afturvirkum hætti fari í bága við 40. gr. og 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglur stjórnsýsluréttar. Um það segir Hæstiréttur að skattyfirvöld hafi heimild til að endurákvarða opinber gjöld síðustu sex ára í samræmi við heimildir í 96. gr. laga nr. 90/2003. Álitamál geti risið, sem ekki hafi áður þekkst í viðskiptalífinu svo sem hér eigi við, og skattyfirvöldum sé heimilt að taka á þeim eftir því sem þau koma upp í skattframkvæmd án þess að í því felist afturvirk skattlagning þannig að fari í bága við ákvæði laga.