Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 153/2012

10.12.2012

Íslenska ríkið gegn Stefáni Ingvari Guðjónssyni og gagnsök.

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 6. desember 2012 var niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7596/2010 frá 23. janúar 2012 snúið við.

Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort að heimilt væri að skattleggja sem laun óheimil lán sem hluthafi hafði fengið hjá einkahlutafélagi sínu og endurgreitt.

Í héraðsdómi kom fram að aðstöðumunur sé annars vegar á þeim sem fá lán sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög og endurgreiða þau og hins vegar á þeim sem endurgreiða slík lán ekki.  Þrátt fyrir þennan aðstöðumun gera ákvæði tekjuskattslaga engan greinarmun á skattlagningu umræddra lántakenda.  Taldi dómurinn að umþrætt ákvæði tekjuskattslaga færu þannig gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, 72. gr. og voru úrskurðir skattstjóra og yfirskattanefndar því felldir úr gildi.

Í dómi Hæstaréttar segir aftur á móti að löggjafanum hafi í dómaframkvæmd verið játað víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattskyldu.  Af hálfu löggjafans hafi ekki verið gert ráð fyrir að endurgreiðsla þeirra lána sem um var deilt í málinu ætti að hafa áhrif á skattskyldu.  Var því ekki talið að lagasetning umræddra ákvæða í tekjuskattslögum fæli í sér brot gegn stjórnarskránni.  Íslenska ríkið var þannig sýknað af kröfum gagnáfrýjanda.

Sjá nánar dóm Hæstaréttar

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum