Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 250/2012

10.12.2012

Jón Ólafsson gegn íslenska ríkinu.

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 6. desember 2012 var íslenska ríkið sýknað af kröfu stefnanda um ógildingu á heimilisfestarúrskurði ríkisskattstjóra sem kveðinn var upp 17. desember 2003.  Hæstiréttur staðfesti þar með niðurstöðu héraðsdóms frá 27. janúar sl.

Stefnandi krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti hans frá 1. janúar 1998 og áfram uns annað yrði ákveðið enda hefði hann fellt niður heimilisfesti sína hér á landi og hefði borið skattskyldu í Bretlandi frá og með 1. september 1998.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram leysa verði úr álitaefninu með því að skoða hvar áfrýjandi hafi haft fasta búsetu á þeim tíma sem um ræðir.  Við það mati verði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að áfrýjandi tilkynnti ekki um breytt lögheimili þegar hann að eigin sögn flutti lögheimili sitt til útlanda 1. september 1998, svo sem honum bar lagaskylda til. Það hafi hann fyrst gert 22. nóvember 2002 eða rúmum fjórum árum síðar. Þá hafi áfrýjandi talið fram til skatts eins og hann væri heimilisfastur og bæri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi allt til ársins 2001.  Jafnframt hafi áfrýjandi átt fasteign hérlendis þar sem hann mun að jafnaði hafa búið þegar hann dvaldi hér á umræddu tímabili.

Að öllu þessu virtu féllst Hæstiréttur á það með stefnda að áfrýjandi hafi verið heimilisfastur og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú lög nr. 90/2003, frá 1. september 1998 til 31. desember 2001. Krafa áfrýjanda um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra 17. desember 2003 var því ekki tekin til greina.

Sjá dóm Hæstaréttar

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum