Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6728/2010
Atli Gunnarsson gegn íslenska ríkinu.
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 13. nóvember 2012 var ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun á nýtingu skattkorts felld úr gildi.
Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort að stefnandi ætti rétt á að draga persónuafslátt maka frá reiknuðum skatti. Stefnandi bar takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna lífeyrisgreiðslna og átti því rétt á persónuafslætti í samræmi við 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. tekjuskattslaga. Eiginkona stefnanda var búsett í Danmörku og hafði engar tekjur frá Íslandi. Ríkisskattstjóri heimilaði stefnanda ekki að nýta persónuafslátt eiginkonu sinnar á þeirri forsendu að lögin kvæðu á um að persónuafsláttur væri eingöngu millifæranlegur í þessum tilvikum þegar bæði hjón væru lífeyrisþegar og skattskyld hér á landi.
Í dómi héraðsdóms er vísað til þess að við túlkun á þeim ákvæðum tekjuskattslaga sem á reyndi í máli þessu yrði að skýra lög í samræmi við EES-samninginn sbr. ákvæði hans um frjálsa för launþega. Eftirlitsstofnun EFTA hefði komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði brugðist í því að uppfylla skyldur sínar skv. ákvæðum EES-samningsins með því að neita bótaþega í öðru landi að njóta skattafrádráttar eiginkonu sinnar en þess réttar hefði hann notið hefðu þau verið búsett á Íslandi.
Héraðsdómur taldi stefnda ekki hafa sýnt fram á að framangreind mismunun væri réttlætanleg og dæmdi hana því ólögmæta.