Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5148/2014

9.5.2016

Sigurður Einarsson gegn íslenska ríkinu

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 3. maí 2016 var íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnanda sem var stjórnarformaður Kaupþings.

Í málinu var deilt um hvort skattleggja bæri tekjur af kauprétti á hlutabréfum í bankanum sem stefnandi fékk sem stjórnarlaun sbr. 16. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands eða sem almenn laun skv. 15. gr. tilvitnaðs samnings. 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að samkvæmt lögum um hlutafélög skuli formaður félagsstjórnar ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórnin felur honum.  Þau störf sem stefnandi tók að sér að inna samkvæmt ráðningarsamningi ber að skýra með hliðsjón þessu.  Helsta verkefni stefnanda var að samræma störf hinna ýmsu alþjóðlegu útibúa og dótturfyrirtækja, gegna starfi stjórnarformanns systur- og dótturfélaga og leita tækifæra til að þróa starfsemi bankans.  Með vísan til þessa taldi dómurinn að greiðslur til stefnanda og þar með talin þau hlunnindi sem honum voru veitt með kauprétti á hlutabréfum í bankanum væru hluti af greiðslum til stefnanda fyrir stjórnarsetu í bankanum.  Ákvæði 16. gr. tvísköttunarsamnings á milli Íslands og Bretlands kveða á um að greiðslur og hlunnindi fyrir stjórnarsetu skuli skattleggjast í því ríki sem félagið sem greiðir launin er heimilisfast.

Hlekkur á dóminn:
http://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=913e188a-1676-4afc-84a4-c499a5229dd6

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum