Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-407/2015
Síminn hf. gegn íslenska ríkinu
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 26. október 2015 var íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnanda.
Í málinu var deilt um frádráttarbærni fjármagnsgjalda í skattskilum stefnanda árið 2007. Hin umdeildu gjöld voru vegna skuldar stefnanda við móðurfélag sitt sem stofnað var með skiptingu stefnanda. Við skiptinguna tók móðurfélagið við tiltekinni skuld stefnanda og eignaðist um leið kröfu á hendur honum. Yfirtekna skuldin hafði færst yfir til stefnanda eftir öfugan samruna við móðurfélagið en til skuldarinnar hafði verið stofnað til að fjármagna kaup á hlutabréfum í stefnanda.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að nokkuð hafi skort upp á að tengsl skuldarinnar séu nægileg við rekstur stefnanda sbr. dóma Hæstaréttar í málum 555/2012 og 529/2013 þar sem niðurstaðan varð sú að fjármagnsgjöld af láni sem tekið var til að afla hluta í dótturfélagi uppfyllti ekki frádráttarskilyrði 31. gr. tekjuskattslaga eftir öfugan samruna þar sem þau gengju ekki til að afla tekna í atvinnurekstri.
Hlekkur á dóminn:
http://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=22b00051-6bb8-4188-a288-a62a04d4348b