Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2274/2015
Ármann Ármannsson, Ármann Fr. Ármannsson og Esther Ósk Ármannsdóttir gegn íslenska ríkinu
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 3. nóvember 2016 var íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnenda.
Kröfur stefnenda voru reistar á því að ríkisskattstjóra hafi verið skylt að verða við endurupptökubeiðni þeirra og leiðrétta þar með álagningu fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2006. Stefnendur rökstuddu kröfu sína með vísan til þeirrar afstöðu ríkisskattstjóra að skipting á hlutafélagi í eigu stefnenda og sala á hlutum í félagi sem stofnað var við skiptingu hafi verið málamyndagerningur. Með því að synja um endurupptöku hafi ríkisskattstjóri skattlagt tvöfalt sölu á fiskiskipi og veiðiheimildum. Söluhagnaður vegna sölu á fiskiskipinu og aflaheimildum hafi þannig komið til skattlagningar annars vegar hjá stefnendum og hins vegar hjá hlutafélagi þeirra.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 12. nóvember 2015 hafi skiptin á hlutafélagi stefnenda ekki tekið gildi fyrr en hluthafafundur í því félagi sem til varð við skiptin hafi samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti. Við það tímamark höfðu stefnendur þegar selt eignarhlut sinn í síðarnefnda félaginu. Stefnendur hafi þannig aldrei fengið hlutabréf í því félagi í sínar hendur nema að nafninu til. Þá hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að framangreindir gerningar hafi í raun falið í sér ráðstöfun á eignum og réttindum í eigu upprunalega félagsins til kaupenda hlutanna í nýstofnaða félaginu.
Um kröfu stefnenda segir svo í dómi héraðsdóms:
„Þó að leiða megi af framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands að tekjur af sölu umræddra eigna og réttinda Ingimundar hf. hefðu með réttu átt að falla félaginu í skaut, en ekki stefnendum, verður ekki framhjá því litið að þeim fjármunum, sem komu fyrir þessi verðmæti, var ráðstafað til stefnenda 16. ágúst 2005,[...] og voru þeim til frjálsrar ráðstöfunar eftir það.“
Með vísan til framangreinds var ríkisskattstjóra rétt að líta svo á að fjármunir sem svöruðu til hagnaðar af sölu umræddra verðmæta hefðu runnið til stefnenda og að þær tekjur bæri að skattleggja hjá þeim. Íslenska ríkið var samkvæmt þessu sýknað.
Hlekkur á dóminn:
http://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=6d17f9e7-0c19-4557-a691-749cea281544