Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2167/2015
Guðmundur Guðmundsson gegn íslenska ríkinu.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 8. febrúar 2016 var íslenska ríkið sýknað af kröfu stefnanda um ógildingu á úrskurði ríkisskattstjóra.
Í málinu var deilt um hvort stefnandi hefði fellt niður heimilisfesti og þar með skattskyldu hér á landi vegna dvalar sinnar erlendis þar sem hann var við störf.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að upplýst hafi verið að stefnandi hafi aldrei dvalið í því húsnæði sem vinnuveitandi hans útvegaði honum í Máritaníu og að hann hefði dvalið í skipi vinnuveitandans. Þá hefði hann ekki ráðstafað neinum fjármunum í Máritaníu og þann tíma sem hann hafi ekki verið við störf um borð hafi hann verið á Íslandi, átt fast heimili hjá eiginkonu sinni og börnum eða verið í orlofsferðum. Ennfremur þóttu greiðslukortayfirlit stefnanda sýna að hann hafi dvalist að mestu hér á landi þegar hann var ekki á sjó. Að þessu virtu féllst dómurinn ekki á að stefnandi hafi haft fasta búsetu í Máritaníu. Full og ótakmörkuð skattskylda hans hélst því hér á landi.
Hlekkur á dóminn:
http://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=5ffbbcf4-83cf-4cf5-a756-b7e015701de4