Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2025/2014

22.5.2015

Glitnir hf. gegn ríkisskattstjóra og íslenska ríkinu

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 21. maí 2015 var fallist á varakröfu stefnanda og felld úr gildi ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun á samsköttun stefnanda og dótturfélaga hans vegna gjaldársins 2011.

Í málinu var deilt um túlkun á 8. gr. laga nr. 165/2010 sem bætti nýjum málslið við 1. mgr. 55. gr. tekjuskattslaga þar sem fram kemur að samsköttun skuli falla niður með félagi sé það tekið til gjaldþrotameðferðar eða sæti slitameðferð, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að framangreint ákvæði laga nr. 165/2010 sé almennt orðað og taki til allra sem sæta gjaldþrota- eða slitameðferð samkvæmt tilvitnuðu ákvæði laga um fjármálafyrirtæki.  Jafnframt kemur fram að játa verði löggjafanum vald til að ákveða hvernig skattlagningu skuli hagað og að ekki hafi verið farið út fyrir mörk stjórnskipulegrar meðalhófsreglu þannig að efni séu til að fallast á aðalkröfu stefnanda.

Um varakröfu stefnanda segir svo í héraðsdóminum að reglur um frádrátt lögaðila frá skattskyldum tekjum þeirra hafi áhrif á þann gjaldstofn sem ræður því hvaða skattur er lagður á þá.  Lagafyrirmæli um heimild hlutafélaga innan tiltekinnar samstæðu til samsköttunar ráða miklu um þennan gjaldstofn enda ræðst tekjuskattur þeirra af sameiginlegum tekjuskattsstofni allra hlutafélaganna.

Ennfremur kemur fram í forsendum dómsins að stefnandi hafi uppfyllt eignarhaldsskilyrði 1. mgr. 55. gr. tekjuskattslaga út árið 2010 sem og önnur almenn skilyrði laganna til þess að unnt væri að samskatta hann með dótturfélögum sínum.  Með lögfestingu 8. gr. laga nr. 165/2010 var að öllu leyti girt fyrir að skattur yrði lagður á samstæðuna á grunni sameiginlegs tekjuskattsstofns hlutafélaganna sem markaðist af tekjum og gjöldum sem stofnað var til á árinu 2010.  Þar sem sú lagasetning tók ekki gildi fyrr en á síðasta degi þess árs var óheimilt skv. 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar að láta hana gilda um tekjuárið 2010 og þar með álagningar 2011.

Varakrafa stefnanda var samkvæmt framansögðu tekin til greina.

Hlekkur á dóminn:
http://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=686a7437-c746-4b50-aa6c-1eb74571b2b8

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum