Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1425/2016

5.5.2017

Sjöfn Björnsdóttir gegn íslenska ríkinu.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 28. apríl 2017 var íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnanda.

Stefnandi krafðist þess að úrskurður yfirskattanefndar í máli hennar yrði felldur úr gildi að því leyti sem kröfum hennar um ógildingu á úrskurði ríkisskattstjóra var hafnað.

Í málinu var deilt um tekjufærslu að fjárhæð kr. 89.325.282 sem ríkisskattstjóri taldi stefnanda hafa fengið að gjöf frá eignarhaldsfélagi sem stefnandi átti ásamt þremur systkinum sínum. 

Í dómi héraðsdóms kemur fram samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um einkahlutafélög sé eingöngu heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem lagt skuli í varasjóð eða til annarra þarfa.  Fram kemur að dómurinn telji að hlutdeildarreikningsskil eins og einkahlutafélagið beitti leiði ekki til rýmri heimilda til arðsúthlutunar en fram kemur í 1. mgr. 74. gr. laga um einkahlutafélög.  Þegar litið sé til eiginfjárstöðu félagsins skv. ársreikningi var ekki heimilt að úthluta hærri arði en sem nam eiginfjárstöðu þess í árslok 2005 eða kr. 442.698.871. Óheimil úthlutun til stefnanda nam kr. 89.325.282 og skattleggja bæri það sem laun sbr. 2. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum