Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2015 í máli nr. E-4219/2013

12.2.2015

Ingimundur hf., Ármann Ármannsson, Ármann Fr. Ármannsson og Esther Ósk Ármannsdóttir gegn íslenska ríkinu

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 10. febrúar 2015 var íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnenda.

Í málinu var efnislega deilt um hvernig fara bæri með ráðstöfun skips og aflaheimilda í skattalegu tilliti.  Stefnanda Ingimundi hf. var skipt upp á þann hátt að skipið Helga RE 49, veiðarfæri þess og veiðiheimildir komu í hlut Fjarðareyjar ehf. og voru eignarhlutföll hluthafa þau sömu og í stefnanda Ingimundi hf.  Fjarðarey ehf. var stofnað í lok júní 2005.  Skipting Ingimundar hf. var tekin fyrir á hluthafafundi og samþykkt í september 2005.  Í maí 2005 hafði aftur á móti allt hlutafé í Fjarðarey verið selt Skinney-Þinganesi ehf. og Ketillaug ehf.  Í þeim kaupsamningi kom fram að félagið væri óskráð einkahlutafélag sem yrði skráð við skiptingu Ingimundar hf.

Stefnandi Ingimundur hf. hélt því fram að félaginu hefði verið skipt upp með fullgildum einkaréttarlegum samningi sem hafi ekki leitt af sér skattskyldar tekjur í hendi hluthafa.  Umrædd viðskipti hafi ekki verið verulega frábrugðin því sem almennt gerist í viðskiptum sem þessum.

Í forsendum héraðsdóms kemur fram að Fjarðarey ehf. hafi verið selt áður en skipting stefnanda Ingimundar hf. hófst formlega.  Því hafi hluthafar í stefnanda Ingimundi hf. ekki fengið afhent hlutabréf í Fjarðarey ehf. sem gagngjald þar sem þeir höfðu þegar afsalað sér rétti til hlutabréfanna.  Skilyrði 1. mgr. 52. gr. tekjuskattslaga var þannig ekki uppfyllt í máli stefnenda.

Hlekkur á dóminn:
http://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=e14c47b2-a234-4eaa-b028-139c8c542be8

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum