Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. E-381/2014

10.3.2015

Hafnarfjarðarkaupstaður gegn íslenska ríkinu

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 5. mars 2015 var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. mars 2014 staðfestur með vísan til forsendna.  Íslenska ríkið var þannig sýknað af kröfum Hafnarfjarðarkaupstaðar á báðum dómsstigum.

Kröfur áfrýjanda lutu aðallega að því að úrskurður ríkisskattstjóra dags. 22. mars 2011 yrði felldur úr gildi og að fjármagnstekjuskattsstofn hans gjaldárið 2010 yrði lækkaður um kr. 5.467.077.430.  Til vara krafðist áfrýjandi að nefndum úrskurði ríkisskattstjóra yrði breytt þannig að fjármagnstekjuskattsstofn hans gjaldárið 2010 yrði ákveðinn 5.671.374.802 og að lagður yrði 10% skattur á stofninn.  Að því frágengnu krafðist áfrýjandi að úrskurði ríkisskattstjóra yrði breytt þannig að stofn til fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2010 yrði lækkaður um kr. 5.467.077.430 og 5.671.374.802 færðar til tekna sem söluhagnaður á gjaldárinu 2009 sem tekjur ársins 2008.

Stefndi krafðist aðallega sýknu en til vara að kröfur áfrýjanda yrðu lækkaðar

Í málinu var deilt um hvort heimilt væri að skattleggja söluhagnað stefnanda vegna sölu hans á hlut í HS Orku hf. en stefnandi er sveitarfélag sem er undanþegið greiðslu tekjuskatts samkvæmt tekjuskattslögum.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að varakrafa áfrýjanda hafi fyrst verið gerð fyrir meðferð málsins fyrir Hæstarétti eftir að báðir aðilar höfðu skilað greinargerðum af sinni hálfu.  Varakrafan sé reist á því að með héraðsdómi 18. mars 2009 í máli áfrýjanda og Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið bundinn endir á óvissu um kröfu áfrýjanda á hendur Orkuveitunni.  Því hafi við ákvörðun fjármagnstekjuskatts á hagnað af sölu hlutabréfa átt að beita 10% skatthlutfalli.

Hæstiréttur vísar til þess að hin nýja kröfugerð hafi ekki verið höfð uppi í héraði og rúmist ekki innan þeirra krafna sem þar voru gerðar af hans hálfu.  Af þeim sökum komi krafan ekki til álita við úrlausn málsins.

Í niðurstöðu héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna kemur fram að þrátt fyrir að ekki verði lagður almennur tekjuskattur á sveitarfélög sbr. 2. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga þá sé skýrt kveðið á um skattskyldu þeirra af tilteknum fjármagnstekjum þar á meðal söluhagnaði hlutabréfa í 4. mgr. 71. gr. laganna.

Þá kemur fram að ákvæði 4. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga brjóti ekki gegn stjórnarskránni og skipti þá ekki máli þó ólíkar reglur gildi um skattlagningu hagnaðar við sölu hlutabréfa hjá öðrum skattaðilum s.s. hlutafélögum og samvinnufélögum. 

Hvað varakröfu stefnanda varðar þá kemur fram í dóminum að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum.  Frá þessari meginreglu verður aðeins vikið þegar tekjur teljast óvissar og í þeim tilvikum ber að miða tekjufærslu við þann tíma þegar endir er bundinn á óvissuna.  Þegar ágreiningi um kröfu er skotið til dómstóla verður að ganga út frá því að krafa teljist óviss þar til endanlegur dómur gengur um skuldbindingargildi hennar.  Fyrst við það tímamark geta tekjur kröfuhafa talist svo öruggar að þær verði andlag tekjuskatts.

Dómurinn taldi ljóst af fyrirliggjandi gögnum m.a. athugasemda í ársreikningi, að stefnandi sjálfur hefði talið tekjur sínar af umræddri sölu óvissar.  Rétt hefði því verið að telja tekjurnar fram í skattframtali 2010 vegna tekjuársins 2009.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum