Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 845/2015
Síminn hf. gegn íslenska ríkinu
Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp þann 27. október 2016 var íslenska ríkið sýknað af kröfu áfrýjanda.
Áfrýjandi krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra þar sem gjaldfærður fjármagnskostnaður var lækkaður sem og yfirfært tap móðurfélags áfrýjanda vegna samsköttunar. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að gjaldfærður fjármagnskostnaður af tiltekinni skuld áfrýjanda við móðurfélag sitt teldist ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður í skattalegu tilliti hjá áfrýjanda.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að endurákvörðunarheimild skattyfirvalda samkvæmt 1. mgr. 97. gr. tekjuskattslaga nái til tekna síðustu sex ára á undan því ári sem endurákvörðun færi fram. Hvorki væri hægt að leiða af orðalagi ákvæðisins né lögskýringargögnum að endurákvörðun sem færi fram innan þess tímamarks væri því aðeins heimil að hún væri reist á atvikum sem einnig hefðu átt sér stað innan tímamarksins. Skattyfirvöld væru almennt óbundin af því hvaða meðferð skattskil hefðu áður fengið. Að því er varðar frádráttarbærni fjármagnskostnaðarins þá taldi Hæstiréttur að tekjuskattslög kvæðu berlega á um að árlega færi fram mat á heimild til frádráttar slíks kostnaðar. Hvorki væri unnt að draga af 1. mgr. 97. gr. tekjuskattslaga né 1. tölul. 31. gr. eða 2. mgr. 29. gr. sömu laga, þá ályktun að atvik sem mat skattyfirvalda væri reist á þyrftu einnig að hafa orðið innan þess sex ára frests sem 1. mgr. 97. gr. kvæði á um. Að þessu virtu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 321/2005 var íslenska ríkið sýknað af kröfu áfrýjanda.
Hlekkur á dóminn:
https://www.haestirettur.is/domar/domur/?id=7be14b25-ada4-4054-b60d-8493d4db90e1