Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 627/2015
Ágúst Jensson og Hrund Kristjánsdóttir gegn íslenska ríkinu
Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 26. maí 2016 var fallist á kröfur áfrýjenda um að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra í máli þeirra.
Í málinu var deilt um hvort ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að endurákvarða opinber gjöld áfrýjenda vegna ársins 2008. Áfrýjendur áttu einkahlutafélag sem þau ákváðu að skipta upp í tvö félög. Áður en skiptin fóru fram seldu þau óstofnaða félagið og þá eign sem átti að tilheyra því félagi. Ríkisskattstjóri taldi að skipting félagsins væri til málamynda, gengið hefði verið á svig við gagngjaldsskilyrði 52. gr. tekjuskattslaga og að samningur áfrýjenda við kaupendur félagsins hefði verið verulega frábrugðinn því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í málinu reyni á skattaleg áhrif gagnvart hluthöfum sem ráðstafað hafa hlutum sínum í óstofnuðu félagi fyrir hlutinn í félaginu sem skipt er. Þá kemur fram að við skiptingu félagsins hafi hlutafé þess verið lækkað og það fært yfir í annað félag. Þó svo áfrýjendur hafi ráðstafað hlutum sínum í viðtökufélaginu áður en skiptingin fór formlega fram verði að líta á greiðsluna sem innt var af hendi vegna lækkunar hlutafjár við skiptinguna sem arð sbr. 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, enda hafi hún farið fram lögum samkvæmt. Áfrýjendur hafi hagað skattskilum sínum í samræmi við þetta og því hafi ekki verið efni til að endurákvarða skattstofna þeirra á gjaldárinu 2008.
Krafa áfrýjenda um að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra var því tekin til greina sem og endurgreiðslukrafa þeirra.
Hlekkur á dóminn:
http://haestirettur.is/domar?nr=11290